Aldrei áður í skráðri sögu Reykjavíkurborgar hefur annar eins fjöldi íbúða staðið ókláraður yfir eins langt tímabil og síðastliðin 5 ár. Það á sama tíma og það hefur sjaldan verið eins lítið framboð á íbúðum. Það á sama tíma og það hefur sjaldan verið eins lítið bætt við af fullkláruðum íbúðum. Það á sama tíma og Dagur B. Eggertsson hefur verið borgarstjóri í Reykjavík.
Borgarstjórinn og meirihlutinn í borginni hafa verið dugleg að stæra sig af því að 2017 hafi verið metár í úthlutunum lóða. En það var ekki seinna vænna á þessu kjörtímabili en að byrja að úthluta lóðum af einhverjum krafti. En í mars á síðasta ári var staðan þessi eins og sést hér, að Reykjavík ásamt Garðabæ voru langtum aftast í lóðaúthlutunum miðað við hin sveitarfélögin í kring það sem af var af kjörtímabilinu, leiðrétt er fyrir íbúafjölda.
Of lítið of seint
En hvað sem því líður, þá býr fólk ekki á úthlutuðum lóðum eingöngu. Fólk þarf fullgerðar íbúðir til að búa í. Metár í úthlutunum er lítið annað en uppsöfnuð þörf. Það er lítið mál að halda úthlutunum í skefjum í 3 ár og springa svo út með þær á 4 árinu og slá sig til riddara fyrir vikið. Líta um leið framhjá því að það hefði verið hægt að byggja og klára stóran hluta af þessum íbúðum ef þeim hefði verið deilt út jafnt og þétt.
Enda ef við skoðum fjölda fullgerðra íbúða í Ársskýrslu Byggingarfulltrúa Reykjavíkur, þá sést að það er hvergi nærri neitt metár. Enda vita það allir sem eru á leigumarkaði eða að leita sér að húsnæði, að það hefur ekki verið annar eins skortur í manna minnum. Þessi skortur er hluti af þéttingarstefnu borgarmeirihlutans. Þeir hafa haldið að sér höndum með að byggja upp á auðveldum stöðum í úthverfum til að freista þess að byggja á dýrum lóðum sem eru meira miðsvæðis. Fyrir þessa stefnu blæðir ungt fólk í leit að sinni fyrstu íbúð í dag.
Raunar væri sanngjarnara að skoða þessa mynd sem hlutfall af fólksfjölda. Því það eru auðsjáanlega mikið fleiri sem þurfa íbúð í dag heldur en fyrr á tíðum, þegar borgin var ekki svo fjölmenn sem hún er nú.
Hér sést hversu illa uppbyggingin er að mæta þörfinni. Jafnframt sést hvernig þörfin hefur safnast upp. Maður skildi ætla að byggingarverktakar næðu að maka krókinn í svona skorti og gætu selt íbúðir eins hratt og þeir geta látið hamarshöggin dynja.
En staðreyndin er sú að hér hefur safnast upp þvílíkt magn af ókláruðum íbúðum að annað eins hefur ekki þekkst í sögu borgarinnar. Hver skildi ástæðan fyrir þessu vera? Það skildi þó ekki vera að lóðirnar sem fékkst leyfi til að byggja á séu svo dýrar að það finnist ekki kaupandi eða fjármagn til að klára bygginguna?
Ábyrgðin er mikil
Ábyrgð núverandi borgarstjórnarmeirihluta á þessum skorti er mikil. Þéttingarstefnan hefur brugðist. Nú er mál að linni. Við þurfum að fara í stórátak hér í borginni. Útþenslustefna þarf að taka við og það þarf að mæta þörfinni fyrir ódýrar lóðir og íbúðir á viðráðanlegu verði hratt! Núverandi borgarstjórn undir forystu Dags B. hefur sýnt að þau muni ekki gera þetta.
Grein eftir : Viðar Freyr Guðmundsson 14. febrúar 2018
Heimild: Kjarninn.is