Vegagerðin fyrirhugar vegaframkvæmdir á Hafnavegi, vegnúmer 44, í Reykjanesbæ á Suðurnesjum.
Til stendur að tengja Hafnaveg inn á Reykjanesbraut (41-18) á nýjum stað, eða inn á hringtorg við Stekk, sem er um 400 m austan við núverandi vegamót Hafnavegar og Reykjanesbrautar.
Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi vegfarenda sem leið eiga um Reykjanesbraut, með því að loka hættulegum T-gatnamótum og tengja nýjan vegkafla Hafnavegar inn á núverandi hringtorg á Reykjanesbraut, ásamt því að tryggja greiðari samgöngur á svæðinu og bæta tengingu við Hafnir.
Framkvæmdakaflinn er um 850 m langur og liggur allur innan lands Reykjanesbæjar.
Kanna þarf matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, viðauka 1, lið 10.09., þar sem um er að ræða byggingu nýs tveggja akreina vegar innan þéttbýlis.
Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Framkvæmdum verður hagað þannig að neikvæð áhrif þeirra verði sem minnst, mótvægisaðgerðum verður beitt og haft samráð við ýmsa aðila.
Meðfylgjandi er greinagerð með nánari upplýsingum um framkvæmdina.
Heimild: Vegagerðin