Einkahlutafélagið Borealis Data Center hefur sent skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduósbæjar umsókn um lóð fyrir gagnaver á svæði sem er í skipulagsferli við Svínvetningabraut. Áform erum um að byggja tvö hús á lóðinni á þessu ári, samtals um 1200 fermetra að stærð. Áætlað er að byggja fleiri hús á lóðinni á næstu árum. Nefndin tekur jákvætt í erindið og mælir með því að byggðaráð úthluti félaginu lóðinni með fyrirvara um samþykki Skipulagsstofnunar.
Borealis Data Center átti fund með sveitarstjórn Blönduósbæjar í júní í fyrra en fyrirtækið var að leita að hentugri staðsetningu fyrir gagnaver þar sem nægt landrými væri og gott aðgengi að raforku.
Samkvæmt fundargerð nefndarinnar frá því í gær verður fyrsta húsið stálgrindarhús á steyptum sökkli klætt með samlokueiningum. Húsið verður um 16×40 og 640 fermetrar að stærð. Næsta hús verður um 12×48 eða um 580 fermetrar.
Mikil vinna hefur farið fram á Blönduósi við að kynna sveitarfélagið sem ákjósanlegan kost fyrir gagnaver. Búið er að eyrnamerkja í aðalskipulagi Blönduósbæjar rúmlega 270 hektara lóð undir slíka starfsemi. Nálægðin við Blönduvirkjun er mikill kostur og engin náttúruvá er á svæðinu.
Heimild: Huni.is