Framkvæmdir eru hafnar í Auðbrekku í Kópavogi þar sem mikil endurbygging er áformuð. Nú má sjá stærðarinnar holu á bak við Bónus á Nýbýlavegi þar sem kranar og jarðvinnutæki hafa komið sér fyrir.
Um er að ræða svæðið sem afmarkast af Hamraborg í suðri og Nýbýlavegi í norðri. Þar er fyrir ýmiss konar atvinnurekstur, svo sem veitingastaðir, bifreiðaverkstæði og verslanir.
Verkefnið hefur tafist þó nokkuð. Fram kom í Morgunblaðinu í byrjun október 2015 að uppbygging nýs íbúðarhverfis í Auðbrekku myndi líklega hefjast vorið 2016 en þar áður voru væntingar um haustið 2014.
Miðað hefur verið við að um 400 íbúðir verði í Auðbrekku fullbyggðri, þar af um 160 í neðri hlutanum sem tilheyra fyrstu áföngum verkefnisins. Þá verða einnig reist húsnæði fyrir atvinnurekstur.