Vinna við að steypa lyftuhús og stigaganga er hafin á svonefndum D-reit á Hlíðarenda í Reykjavík. Alls 142 íbúðir verða á D-reit, eða 7 fleiri en áður var áætlað.
Kristján Ásgeirsson, arkitekt hjá Alark arkitektum, hefur unnið að hönnun á D-reit. Spurður um hönnun á reitnum segir Kristján óvenjulegt að húsin fylla alveg út í lóðina.
„Þetta er ekki hefðbundin fjölbýlishúsalóð með bílaplani. Þarna stendur húsið á allri lóðinni og með inngarði. Bílastæðin eru á tveimur hæðum í kjallara. Það er því búið að flytja bílastæðalóðina neðanjarðar,“ segir Kristján í samtali við Morgunblaðið í dag.
Lögmaður lóðarhafa á D-reit áætlaði í bréfi til skipulagsyfirvalda í borginni sl. vor að fermetraverð íbúða á reitnum yrði um 580 þúsund krónur. Samkvæmt því mun 100 fermetra íbúð kosta 58 milljónir.
Heimild: Mbl.is