Home Fréttir Í fréttum Segir að Kópavogsbær hafi tekið tillit til sjónarmiða íbúa

Segir að Kópavogsbær hafi tekið tillit til sjónarmiða íbúa

196
0
Furugrund 3 hefur að stórum hluta staðið ónotað lengi. Mynd: vísir/vilhelm

„Staðreyndin er sú að það er búið að fækka fyrirhuguðum íbúðum þarna umtalsvert,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. Fréttablaðið greindi frá andstöðu íbúa í Snælandshverfi við breytingu aðalskipulags á reitnum þar sem Furugrund 3 stendur.

<>

Um er að ræða verslunarhúsnæði sem að mestu hefur staðið autt í níu ár. Áður var þar verslun Nóatúns og Snæland video. Tillaga er nú til meðferðar hjá bænum um að breyta húsnæðinu í íbúðir. Til stendur að hækka þakið og heimila allt að 12 íbúðir í húsinu.

Í fréttinni gagnrýndu íbúar í hverfinu meðferð málsins og gáfu í skyn að þeir upplifðu samráðsferli við íbúa sem sýndarmennsku. Ármann bendir á móti á að vegna andstöðu íbúa hafi verið fallið frá hugmyndum um að heimila byggingu á 32 hótelíbúðum. „Það er alveg klárlega verið að taka tillit til sjónarmiða íbúa í þessum efnum,“ segir hann.

Ármann bendir á að húsið hafi staðið autt lengi og að verslunarrekstur hafi þar illa þrifist. Hann upplifi að miklu meiri samstaða sé um að byggja þarna íbúðir en fram hafi komið í fjölmiðlum. „Okkur ber skylda til að sýna meðalhóf í okkar stjórnsýslu. Þetta er komið á þann stað að við getum ekki sagt nei við öllu.“ Heppilegra sé að hafa íbúðarhúsnæði á lóðinni – sem er við skóla og leikskóla – heldur en aðra starfsemi, sem óljóst er hverrar tegundar yrði.

Heimild: Visir.is