„Hugsunin hjá okkur er tvíþætt. Annars vegar að skapa almennilegt búsetuúrræði fyrir erlenda starfsmenn og hins vegar að létta aðeins á þessum fasteignamarkaði,“ segir Eiríkur Ingvar Ingvarsson, framkvæmdastjóri Somos ehf.
Fyrirtækið hefur farið þess á leit við Mosfellsbæ að fá leyfi til uppsetningu starfsmannabúða í bænum fyrir erlenda starfsmenn sem vinna á vegum félagsins hér á landi. Samþykkt var í bæjarráði Mosfellsbæjar á fimmtudag að senda erindið til umsagnar umhverfissviðs bæjarins.
Í erindi Somos til Mosfellsbæjar kemur fram að félagið hafi útvegað stórum verktökum iðnaðarmenn frá Póllandi. Í því ástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði hafi þurft að afla húsnæðis fyrir umrædda starfsmenn annaðhvort utan höfuðborgarsvæðisins eða í húsnæði sem kosti umtalsvert meira en starfsmennirnir eru tilbúnir að greiða.
Heimild: Mbl.is