Home Fréttir Í fréttum Harmar að 35 íbúða blokk standi auð

Harmar að 35 íbúða blokk standi auð

221
0
Blokkin er búin 35 íbúðum sem eru frá 60 til 130 fermetrar að stærð. Framkvæmdastjóri Stapa, vill ekki gefa upp kaupverð íbúðanna. Mynd: Vísir/auðunn
Framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs harmar að 35 íbúða blokk sem sjóðurinn keypti hafi staðið auð frá því í ágúst. Ekki sé æskilegt fyrir lífeyrissjóði að standa í skammtímafjárfestingum með íbúðarhúsnæði.

Átti að leigja íbúðirnar út

Í Fréttablaðinu um helgina var greint frá því að Stapi reyni nú að selja í heild sinni fjölbýlishús með 35 íbúðum við Undirhlíð á Akureyri. Blokkin var keypt af verktaka í vor og hefur staðið auð frá því hún var tilbúin í ágúst. Upphaflega átti að leigja íbúðirnar út en eftir að skipt var um stjórnendur var ákveðið að selja blokkina. Þetta var í fyrsta sinn sem sjóðurinn fjárfesti í íbúðarhúsnæði.

<>

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, segir að horfur á fasteignamarkaði hafi ekki orðið til þess að breytt var um stefnu. „Þetta er ennþá arðsamt verkefni. Það sem hefur breyst er þá geta, eða þær hendur sem við höfum til að vinna að verkefninu hjá okkur.“

Staða sem ekki var gert ráð fyrir

Jóhann vonast til að söluferli ljúki á næstu dögum en vill hvorki gefa upp líklegan kaupanda né kaupverð. Ef ekki gengur að selja er ekki útilokað að íbúðirnar verði leigðar út.

Aðspurður segir hann ekki æskilegt að lífeyrissjóðir fjárfesti í íbúðarhúsnæði til skamms tíma, enda hafi það aldrei verið markmiðið. „Þetta er ekki staða sem við gerðum ráð fyrir að gæti komið upp varðandi þetta verkefni. Við förum út í svona verkefni til langs tíma. Það er ekki æskilegt, og var aldrei ætlunin, að þetta yrði fjárfesting til skamms tíma,“ segir Jóhann.

Leggja kapp á að koma íbúðunum í notkun

Líkt og á landinu öllu er húsnæðisskortur á Akureyri. Jóhann segir þess vegna afar óheppilegt að heil blokk á vegum sjóðsins hafi aldrei verið tekin í notkun. „Við náttúrulega hörmum það að íbúðirnar séu tómar. Það er ekki óskastaða og ekki góð staða og við erum að leggja allt kapp á það að geta íbúðunum í notkun sem fyrst,“ segir Jóhann.

Heimild: Ruv.is