Erlent starfsfólk er um tíu prósent af fólki á vinnumarkaði hér. Innflytjendur voru 10,6% landsmanna í ársbyrjun og Pólverjar eru langfjölmennastir þeirra eða um 14 þúsund. Pólsk yfirvöld biðla nú til Pólverja sem búa og starfa erlendis að snúa aftur heim því mikil þörf sé fyrir fleiri vinnandi hendur í Póllandi.
Eins og við sögðum frá í fréttum fyrir helgi hefur sendiherra Pólverja í Danmörku farið á milli vinnustaða þar í landi til að hvetja samlanda sína til að snúa aftur heim.
Framlag útlendinga skiptir höfuðmáli
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að erlent starfsfólk sé órofa hluti af íslenskum vinnumarkaði og framlag þess skipti höfuðmáli. Samtök atvinnulífsins hafi spáð því fyrir rúmu ári að 2040 verði útlendingar um 20% af vinnumarkaðnum. Það sé sú þróun sem menn sjái og geri ráð fyrir að haldi áfram. Hún sé gleðileg í öllum aðalatriðum.
Þurfum fleira fólk
Halldór segir að til að standa undir hagvexti þurfi fleira fólk að koma til landsins til að búa hér og starfa. Taka verði vel á móti erlendu starfsfólki og hjálpa því að læra íslensku, því án íslenskukunnáttu sé hætta á að útlendingar einangrist.
Við þurfum að vinna að því að það komi fleira fólk til landsins til að vinna. Besta leiðin til þess er að fólk kjósi að búa og starfa á Íslandi. En þá þurfum við að tryggja að það sé eftirsóknarvert að vera hérna og jafnframt tryggja að fólk uppskeri árangur erfiðis síns. Í því samhengi skiptir höfuðmáli að við einhendum okkur í að taka vel á móti erlendu starfsfólki og það verði hluti af íslensku samfélagi.
Heimild: Ruv.is