Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hefur hagnast gríðarlega á undanförnum árum þökk sé hækkandi fasteignamati. Framkvæmdastjóri félagsins segir núverandi ástand á fasteignamarkaðnum valda því að fleiri sýni Búseta-fyrirkomulaginu aukinn áhuga og hyggst félagið byggja 323 nýjar íbúðir á næstu tveimur til þremur árum.
Staðan á íslenskum fasteignamarkaði endurspeglast með áhugaverðum hætti í afkomu húsnæðissamvinnufélagsins Búseta en að sögn Bjarna Þórs Þórólfssonar, framkvæmdastjóra félagsins hefur eftirspurn eftir íbúðum Búseta aukist undanfarin misseri.
Hagnaður félagsins hefur aukist stórlega undanfarin fjögur ár í samræmi við hækkun fasteignamats, eða úr 418 milljónum króna í rúma 3,2 milljarða. Hagnaðurinn gefur fyrirtækinu, sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða, tækifæri til að fjölga við íbúðum en 153 nýjar íbúðir verða teknar í notkun á árunum 2017-18 og svo aðrar 170 íbúðir á árunum 2019-20.
Minni áhætta en við hefðbundin fasteignakaup
Sem fyrr segir er Búseti svokallað húsnæðissamvinnufélag sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er í eigu félagsmanna hverju sinni. Félagið var stofnað árið 1983 og býður í dag upp á rúmlega 900 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og Akranesi.
Kostirnir við búseturéttinn eru að sögn Bjarna fjölmargir en felst þó helst í því að draga úr þeirri áhættu sem fylgir því að eiga fasteign. „Í mánaðargjaldinu sem fólk greiðir til okkar felst allt í senn afborgun á lánum, tryggingum, fasteignagjöldum, hússjóðum og fleira. Þá er fólk auk þess laust við allar áhyggjur af utanhúsviðhaldi og óvæntum fjárútlátum á sama tíma og það býr við öryggi til framtíðar enda ekki hægt að segja upp samningum við félagsmenn.“
Hagur félagsins vænkast
Ársreikningar síðustu ára sýna svo ekki verði um villst að hagur félagsins hefur vænkast til muna á síðustu fjórum árum líkt og annarra fasteignafélaga. Vegur þar þyngst hækkun fasteignamats og stækkun félagsins með fjölgun eigna.
Þannig hafa rekstrartekjurnar aukist um 65% eða úr 618 milljónum árið 2013 í rúman 1 milljarða árið 2016. Á sama tímabili jókst hagnaður félagsins úr 115 milljónum króna í rúman einn milljarða, eða sem nemur tæplega 670% aukningu á fjórum árum.
323 íbúðir á næstu þremur árum
Góð staða félagsins gefur Búseta jafnframt aukið svigrúm til frekari uppbyggingar og er óhætt að fullyrða að eignasafn þess muni stækka mikið á næstunni, eða um allt að 323 íbúðir á næstu tveimur til þremur árum.
„Á árinu 2016 voru fyrstu íbúðirnar á Smiðjuholtsreiknum tilbúnar sem og fyrstu raðhúsaíbúðirnar við Ísleifsgötu og fjórbýlishús við Laugarnesveg. Alls bættust því 69 nýjar íbúðir í eignasafn Búseta það árið. Á árunum 2017-18 munu svo aðrar 153 íbúðir bætast við í Smiðjuholti og við Ísleifsgötu. Þá er unnið að undirbúningi nýbygginga á þremur nýjum svæðum, við Skógarveg, Keilugranda og Árskóga og munu 170 nýjar íbúðir verða teknar í notkun á árunum 2019-20,“ segir Bjarni að lokum.
Heimild: Vb.is