Fyrir ári greindi Skessuhorn frá því að pípulagningameistarinn Hilmir B. Auðunsson hygðist flytja fyrirtæki sitt frá Borgarnesi til Reykjavíkur vegna þess að hann gat ekki mannað fyrirtækið.
Nú ári síðar er annað upp á teningnum hjá Hilmi en hann rekur enn fyrirtækið í Borgarnesi og hefur nú stækkað það. „Fréttin í Skessuhorni í fyrra um að ég ætlaði að færa starfsemina vakti mikla athygli hér í Borgarnesi.
Ég fann fyrir miklum vilja bæjarbúa að halda fyrirtækinu áfram hér innan sveitarfélagsins. Þetta hafði að sjálfsögðu áhrif á mig og ég hélt starfseminni gangandi.
Um áramótin gekk Páll Sigurðsson svo inn í fyrirtækið og keypti helmingshlut í því.
Með því var staðan orðin önnur og ég gat haldið starfseminni áfram á svæðinu,“ segir Hilmir.Með innkomu Páls í fyrirtækið var ákveðið að breyta nafni þess úr Hilmi B. ehf. í HP pípulagnir ehf.
Nú í sumar festi fyrirtækið svo kaup á iðnaðarhúsnæði við Brákarbraut 18-20. „Við eigum annan endann á þessari lengju hér í Brákarey. Við höfum verið í bráðabirgðahúsnæði frá áramótum en það munar miklu að vera komnir í húsnæði sem maður getur byggt til framtíðar.
Við erum með lager í húsnæðinu og höfum stækkað lager fyrirtækisins um 40% eftir flutninginn á Brákarbraut.
Það er alveg nauðsynlegt fyrir fyrirtæki sem þetta sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins að vera með stóran og góðan lager eins og við erum með hér, það bætir þjónustuna umtalsvert og er mikill tímasparnaður.
Það er erfitt að koma svona lager upp en til framtíðar litið er það alltaf þess virði,“ segir Páll.Þeir Páll og Hilmir horfa björtum augum á framhaldið enda nóg af verkefnum framundan. „Við sjáum það núna að það verða næg verkefni fram að áramótum.
Við Páll höfum sömu sýn á fyrirtækið að því leyti að við viljum fyrst og fremst þjónusta fyrirtæki og einstaklinga og erum minna í því að vinna undir byggingaverktökum. Þetta lítur bara vel út hjá okkur,“ segir Hilmir. Á næstunni mun nemi sem hefur verið hjá þeim Páli og Hilmi láta af störfum og klára sitt nám.
Nokkur skortur er á pípulagningamönnum í landinu en þeir hjá HP pípulögnum óttast ekki að geta ekki mannað fyrirtækið. „Að vera pípari er gott starf og vel launað, maður vill bara hvetja fólk að mennta sig í pípulögnum. Við erum allavega opnir fyrir því að taka nema til okkar,“ segir Páll að endingu.
Heimild: Skessuhorn.is