Home Fréttir Í fréttum Mathöllin við Hlemm fer langt fram úr áætlun

Mathöllin við Hlemm fer langt fram úr áætlun

206
0

Framkvæmdir við húsnæði Mathallarinnar á Hlemmi eru komnar 45 milljónir króna fram úr áætlun og útlit er fyrir frekari framúrkeyrslu hjá Reykjavíkurborg. Munar þar mestu um endurbætur á þaki sem kostuðu 35 milljónir og í vor kom í ljós að endurnýja þarf raflínur að húsinu.

<>

Reykjavíkurborg á Hlemm og samþykkti í febrúar í fyrra leigusamning við Íslenska sjávarklasann um rekstur Mathallarinnar. Frumkostnaðar­áætlun hljóðaði þá upp á 107 milljónir króna, þar af áttu 82 milljónir að fara í breytingar á húsnæðinu, og átti framkvæmdum að ljúka síðasta haust. Í desember var lögð fram uppfærð kostnaðaráætlun í borgarráði sem hljóðar upp á 152 milljónir. Samkvæmt henni áttu verklok að vera um síðustu mánaðamót en iðnaðarmenn eru enn að störfum í húsinu.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir ljóst að kostnaður muni aukast miðað við áætlunina sem lögð var fram í desember. Útlit sé fyrir að húsið verði afhent um miðjan júní.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar.

„Það hafa komið upp fleiri mál sem þarf að taka á og samkvæmt nýjustu upplýsingum er ekki hægt að ákvarða þennan kostnað fyrr en að verki loknu en það verður að öllum líkindum gert í september. Þetta eru viðhaldsmál sem koma upp þegar gera þarf upp gamalt hús,“ segir Bjarni.

Bjarki Vigfússon, framkvæmdastjóri Hlemms – Mathallar, segir framkvæmdirnar hafa tafist úr hófi fram og að hann geti ekki svarað því hvenær matarmarkaðurinn verði opnaður. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru ýmsar ástæður fyrir því að verklokum hefur seinkað. Byggingarleyfi fékkst ekki á réttum tíma og Strætó bs. ætlaði upphaflega að leigja hluta hússins undir kaffistofu vagnstjóra sem eigendur matarmarkaðarins féllust ekki á. Síðar kom í ljós að rafmagnið sem fyrir er nægir ekki rekstri Mathallarinnar.

„Borgin áætlar að geta látið okkur hafa húsið um miðjan júní en þá er ýmislegt eftir,“ segir Bjarki.

Heimild: Visir.is