Home Fréttir Í fréttum Segir kostnað við breytingar vandlega metinn

Segir kostnað við breytingar vandlega metinn

127
0
Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar segir ekkert óeðlilegt þó dýrt verði að endurnýja húsnæði Listasafnsins á Akureyri. Endurnýjunin sé löngu tímabær og húsið stórt. Fulltrúi í minnihluta bæjarstjórnar hefur gagnrýnt kostnaðinn og kallað hann bruðl.

Hörð gagnrýni hefur komið fram á mikinn kostnað við breytingar á Listasafninu og Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, bent á að 400 milljóna króna áætlun stefni í að verða 600 milljónir.

<>

Einföldun að tala um 200 milljóna framúrakstur

Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, segist fagna umræðunni. Allir kostnaðarliðir hafi verið skoðaðir vandlega. „Þegar umræðan átti sér stað við fjárhagsáætlun þá lá endanleg hönnun ekki fyrir. Og þegar hún kom og kostnaðaráætlun lá fyrir, þá sáum við fram á það að þetta yrði töluvert dýrara.“ Því sé einföldun að slá þessu upp sem 200 milljóna króna framúrakstri. Húsið sé gríðarstórt og uppsafnað viðhald til margra ára. Brunavarnir séu í ólagi, vatns- og raflagnir, aðgengi fatlaðra og margt fleira.

Tengibygging skapi ný tækifæri og hagræði

Starfsemi Listasafnsins á Akureyri er í tveimur byggingum í dag; gamla mjólkursamlagshúsinu og Ketilhúsinu. Hugmyndin er að sameina þessi tvö hús með tengibyggingu, en um það er ekki samstaða. Ingibjörg segir að kostnaður við tengibygginguna sé lítill hluti af heildarkostnaðinum. Það húsnæði skapi hins vegar ný tækifæri og rekstrarlegt hagræði. „Hugmyndin um tengibyggingu er ekki ný af nálinni. Húsið er í raun hannað í kringum þessa tengibyggingingu. Þetta verður hjartað í húsinu. Þarna kemurðu inn, þarna verður aðgengi að lyftu, móttaka og vonandi líka veitingaaðstaða.“

Segir framkvæmdina í heild styrkja safnið

Þá segir hún að framkvæmdin í heild sinni muni styrkja starfsemi listasafnsins. „Og ég held að þetta verði mjög góð viðbót við það gróskumikla starf sem er hérna í listagilinu. Sem á sér eiginlega enga hliðstæðu.“

Heimild: Ruv.is