Home Fréttir Í fréttum Um tíu prósent af línunum verði jarðstrengir

Um tíu prósent af línunum verði jarðstrengir

123
0
Nýjar háspennulínur, frá Blönduvirkjun austur í Fljótsdal, verða ekki nema að mjög takmörkuðu leyti lagðar í jörð. Þetta kemur fram í úttekt Landsnets á tæknilegum möguleikum jarðstrengja á hæstu spennu í flutningskerfinu.

Landsnet birti í dag skýrslu um mögulegar lengdir jarðstrengja í þremur nýjum 220 kílóvolta háspennulínum. Blöndulínu 3, Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3. Línulengdin er samtals 310 kílómetrar og þessi úttekt Landsnets sýnir að aðeins yrði mögulegt að leggja rúm 10 prósent línanna í jörð, eða 37 kílómetra.

<>

Þetta sé „kvótinn“ sem Landsnet hafi

„Það er eiginlega kvótinn, ef hægt er að segja sem svo, sem við höfum þarna,“ segir Magni Þór Pálsson, verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti. „En greiningarnar vísa enn fremur í að það er ekki mögulegt að hafa hámarkskvóta í hverri línu, ef þær eru allar þrjár byggðar.“ Hann tekur fram að þetta sé greining á mögulegu umfangi jarðstrengja. Nánari hönnun og rannsóknir leiði í ljós endanlega niðurstöðu. Lengd jarðstrengja í hverri línu fyrir sig geti því breyst.

Lengri jarðstrengir geti valdið vandræðum

Og hann segir að jarðstrengjum í flutningskerfinu fylgi vandamál. „Kerfið þarna á Norðurlandi er tiltölulega veikt. Lengri jarðstrengir geta valdið því að við lendum í spennuvandræðum og hreinlega vandræðum með stýringu á kerfinu.“ Sem geti leitt til rafmagnstruflana og skemmda á raftækjum. „Raffræðilegir eiginleikar jarðstrengja eru talsvert frábrugðnir raffræðilegum eiginleikum loftlína.  Og við viljum stíga varlega til jarðar í þessum efnum.“ Og til að jarðstrengir með svo hárri spennu verði valkostir á lengri leiðum þurfi að styrkja núverandi flutningskerfi.

Umhverfisaðstæður ekki metnar í skýrslunni

Mikil andstaða er á meðal margra landeigenda við lagningu loftlína á þeirri línuleið sem hér er til umfjöllunar. Sérstaklega á svæði Blöndulínu. Því er eðlilegt að spyrja hvort þessir landeigendur muni þá ekki sjá jarðstrengi um sínar landareignir. Þarna ítrekar Magni að skýrsla Landsnets sýni aðeins tæknilega greiningu. Umhverfisaðstæður, kostnaður og fleira hafi ekkert verið skoðað. „Þannig að við getum ekki svarað því á grundvelli þessarrar skýrslu,“ segir hann.

Sömu viðmið og hjá EirGrid á Írlandi

Magni segir Landsnet hafa þurft að þróa aðferðafræðina við þessar rannsóknir og hafi til þess fengið utanaðkomandi ráðgjafa. En þegar vinna við verkefnið var komin vel á veg hafi þeir komist yfir skýrslur og gögn frá írska flutningsfyrirtækinu EirGrid. „Sem hafði einmitt verið í samskonar stúdíu þar sem þeir voru að meta mögulega lengd á jarðstreng,“ segir hann. „Þannig að við höfum leitað í smiðju þeirra og notað þeirra viðmið. Það var okkur mjög góð staðfesting að sjá að þeir voru að beita svipuðum aðferðum og við höfðum farið af stað með.“