Home Fréttir Í fréttum Kynntu vindorkuvirkjun í Garpsdal fyrir verktökum

Kynntu vindorkuvirkjun í Garpsdal fyrir verktökum

70
0
Svona sér EM orka fyrir sér að vindmyllurnar í Garpsdal gætu litið út séð frá Saurbæ, hinum megin við Gilsfjörðinn. – Aðsend - EMOrka

Fulltrúi EM orku kynnti áform um vindorkuvirkjun fyrir verktökum á Ísafirði í vikunni. Orkumálaráðherra hefur lagt til að virkjunarkosturinn fari í nýtingarflokk rammaáætlunar.

EM orka vill reisa vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólasveit. Í gær hélt Ríkarður Ragnarsson, verkefnastjóri EM orku, kynningarfund fyrir verktaka á Ísafirði, í samstarfi við Bláma.

Þetta er þriðji slíki fundurinn. Áður hafði Ríkarður kynnt verkefnið í Reykhólasveit og Hörpu í Reykjavík. „Við ætlum að setja ákveðnar kvaðir á stóru verktakana, brjóta verkefnið upp þannig að það sé hægt að deila verkþáttum niður til nærsamfélagsins,“ segir Ríkarður.

Verkefnastjórn fimmta áfanga rammaáætlunar lagði til að Garpsdalur færi í biðflokk ásamt níu einkareknum vindorkukostum. Síðasta sumar lagði Jóhann Páll Jóhannsson orkumálaráðherra til að Garpsdalur færi í nýtingarflokk. Áður hafði verið fjallað um Garpsdal í fjórða áfanga rammaáætlunar sem rann inn í þann fimmta.

Ráðherra lagði til að virkjunin færi í nýtingarflokk

Þegar ráðherra setti tillöguna í samráðsgátt stóð til að hún yrði lögð fyrir haustþing ásamt stefnu um vindorku. Það hefur ekki gerst enn en stuttu fyrir jól setti ráðherra frumvarp um vindorkustefnuna í samráðsgátt.

Um ákvörðun ráðherra segir Ríkarður: „Hann bendir á stuðning úr nærsamfélagi. Það er eitthvað sem við höfum eytt mikilli vinnu í frá 2018. Við höfum haldið samtalinu mjög opnu við fólk í nærsamfélagi.“

Nærsamfélagið gæti fengið íþróttahús

Ríkarður segir áherslu á að minni og meðalstór fyrirtæki í nágrenni við Garpsdal geti komið að verkefninu. Þá leggi móðurfyrirtækið, sem hefur aðsetur á Írlandi og er í pólskri og portúgalskri eigu, áherslu á stuðning við samfélagið. „Þessu verkefni fylgir samfélagssjóður og samansafnað yfir líftímann þá munu safnast 465 milljónir,“ segir Ríkarður. Í öðrum verkefnum móðurfyrirtækisins EMPower er sótt um í sjóðinn árlega.

Í Garpsdal er til skoðunar að nýta allan sjóðinn í einu í uppbyggingu við sundlaugina. „Við fengum tillögu frá ungmennafélaginu Aftureldingu í Reykhólahreppi að byggja upp fjölnýtanlegt íþróttahús á Reykhólum.“

Reikna út hversu margir fuglar flygju á myllurnar

Á fundinum fór Ríkarður yfir ásýnd virkjunarinnar og áhrif á umhverfi. Hvað fuglalíf varðar tók hann fram að ernir héldu sig fremur við strandlínu en í fjöllunum þar sem vindmyllur væru fyrirhugaðar. Áflugsútreikningar gerðu ráð fyrir að á 25 ára líftíma vindmyllanna dræpust níu fuglar, mest rjúpur og hrafnar en einn örn.

Ekki er búið að tryggja virkjuninni jöfnunarorku. Félagið áætlar að vindorkuvirkjunin myndi skila orku 43% ársins. Ríkarður segir verið að ræða við mögulega orkukaupendur. Orkuna mætti selja til framleiðenda sem geta stýrt notkun eftir framboði á orku eða til stærri verkefna sem geta sjálf séð sér fyrir jöfnunarorku.

Ef Garpsdalur fer í rammaáætlun í mars gerir Ríkarður ráð fyrir að framkvæmdir gætu hafist ári síðar. Ef allt fer samkvæmt þeirra áætlun gætu þeir byrjað að senda orku á tengivirkið í Geiradal í nágrenni Garpsdals í lok árs 2028.

Heimild: Ruv.is