Ólafur Torfason, stofnandi og stjórnarformaður Íslandshótela, segir áformað að hefja sölu nýrra íbúða í Sigtúni með sumrinu. Tímasetningin taki mið af uppbyggingu bílakjallara enda þurfi að vera næg bílastæði fyrir fyrsta áfanga.
Alls verða byggðar 109 íbúðir á reitnum sem er austan við Hótel Reykjavík Grand í Sigtúni. Þar af koma 47 íbúðir í sölu í sumar og er vinna við þær langt komin. Búið er að setja klæðningu á austasta fjölbýlishúsið og eru málarar og iðnaðarmenn að vinna að lokafrágangi.
Uppsteypa langt komin
Vestar á reitnum er verið að steypa upp fjölbýlishús og má gera ráð fyrir að þeim áfanga ljúki á næstunni. Enn vestar, við hlið hótelsins, er uppsteypa á viðbyggingu við hótelið að hefjast. Með því fjölgar herbergjum um hér um bil 100 og verður Hótel Reykjavík Grand þar með stærsta hótel landsins í herbergjum talið.
Heimild: Mbl.is












