Heildverslunin K. Þorsteinsson & Co velti 349 milljónum króna árið 2024.
Fagkaup hefur náð samkomulagi um kaup á heildversluninni K. Þorsteinsson & Co. ehf., sem sérhæfir sig í innflutningi og sölu á vörum til byggingaiðnaðar og verkfærum.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem hefur nú samrunatilkynningu félaganna til skoðunar.
K. Þorsteinsson & Co. í Skútuvogi 10 flytur inn vörur frá 17 framleiðendum eða heildsölum. Þar eru stærstir Stanley Black&Decker, Fiskars Denmark og Fiskars Norway.
Heildsalinn velti 349 milljónum króna árið 2024, samanborið við 404 milljónir árið 2023. Hagnaður félagsins nam 8,7 milljónum árið 2024. Eignir félagsins námu 144 milljónum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 107 milljónir.
K. Þorsteinsson & Co. ehf., sem var stofnað árið 1949, hefur verið í eigu Sveinskróks ehf. frá árinu 2015. Sveinskrókur er í 35% eigu Símonar S. Sigurpálssonar, 20% eigu Sigurpáls Ísfjarðar Símonarsonar, 25% eigu Agnars Daníelssonar og 25% eigu Maríu Daggar Aðalsteinsdóttur.

Fagkaup, sem er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, rekur verslunar- og þjónustufyrirtækin Johan Rönning, Sindra, Vatn & veitur, S. Guðjónsson, Áltak, K.H. Vinnuföt, Varma og Vélaverk, Ísleif, Hagblikk, Fossberg og DS Lausnir.
Með kaupum á K. Þorsteinssyni & Co verða rekstrareiningar innan samstæðunnar tólf í heildina.
Rekstrartekjur Fagkaups námu 25,6 milljörðum króna á árinu 2024 og hagnaður nam tæpum 1,4 milljörðum króna. Eignir félagsins í árslok 2024 námu 15,6 milljörðum króna og eigið var um 6,9 milljarðar.
Heimild: Vb.is












