Home Fréttir Í fréttum Allar ljótustu nýbyggingar landsins eru í Reykjavík

Allar ljótustu nýbyggingar landsins eru í Reykjavík

27
0
Ljótustu nýbyggingar landsins samankomnar á einni mynd. fréttagrafík – Kristrún Eyjólfsdóttir

„Græna gímaldið“, ný göngubrú yfir Sæbraut og nýi Landsbankinn eru þrjár ljótustu nýbyggingar landsins samkvæmt nýrri könnun. Fimm ljótustu nýbyggingarnar eru allar í höfuðborginni.

Græna vöruhúsið við Álfabakka, „Græna gímaldið“, er ljótasta nýbygging ársins. Þetta er niðurstaða nýbyggingakosningar Arkitektúruppreisnarinnar 2025. Af 5.755 atkvæðum féllu 43,7% í hlut Græna gímaldsins.

Ófáar fréttir hafa verið skrifaðar á árinu um húsið. Einkum eru það íbúar við Árskóga, sem búa þétt upp við grænu skemmuna, sem hafa mótmælt því að húsið hafi risið. Nærri þrjú þúsund manns skrifuðu undir mótmælalista sem afhentur var borgarstjóra snemma á árinu vegna byggingarinnar.

Stutt er á milli grænu vöruskemmunnar og fjölbýlishúss við Árskóga, neðarlega í Breiðholti.
RÚV / Ragnar Visage

Í öðru sæti lenti ný göngubrú yfir Sæbraut með 27,5% atkvæða. Brúin var tekin í notkun í ágúst. Tilgangur brúarinnar er að bæta umferðaröryggi þar til Sæbraut verður sett í stokk. Henni er því ætlað að vera tímabundin lausn.

Nýja göngubrúin við Sæbraut.
RÚV / Ragnar Visage

Nýja Landsbankahúsið við Reykjarstræti í miðborginni fékk 11,7% atkvæða og lenti í þriðja sæti. Nýju höfuðstöðvarnar voru teknar í notkun fyrir tveimur árum. Kostnaður við bygginguna nam 16,5 milljörðum króna.

Nýr Landsbanki við Austurhöfn í Reykjavík.
RÚV / Ragnar Visage

Í fjórða sæti er nýtt skrifstofuhús Alþingis, Smiðja, sem hlaut 8,9% atkvæða. Sitt sýnist hverjum um bygginguna. Sumir hafa lýst yfir ánægju sinni en aðrir, meðal annars Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins, hafa gagnrýnt hana og sagt hana ekki nægilega klassíska.

Smiðja stendur á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis í Kvosinni.
RÚV / Ragnar Visage

Nýr Landspítali vermir svo fimmta sæti með 8,1% atkvæða. Nýr Landspítali við Hringbraut er eitt stærsta framkvæmdaverkefni Íslandssögunnar og heildarkostnaður er talinn nema um 200 milljörðum króna. Áætlanir um framkvæmdahraða hafa ekki staðist. Vonir standa til að framkvæmdum ljúki fyrir lok árs 2028 og að starfsemi verði komin á fullt fyrir árslok 2030.

Framkvæmdir standa yfir við Nýjan Landspítala við Hringbraut.
RÚV / Ragnar Visage

Heimild: Ruv.is