Talsvert mikið þarf til svo að ríkið auki hlutafé Isavia. Stefna að viðræðum við lánveitendur um útvíkkun lánakvaða.
Isavia hefur fært niður framkvæmdaáætlun sín vegna stækkunar Keflavíkurflugvallar um sem nemur 2-3 milljörðum króna á næstu 5-7 árum, sem skýrist m.a. af því að ríkisfyrirtækið gerir ekki ráð fyrir hlutafjáraukningu frá ríkinu til að styðja við uppbygginguna.
„Eigandinn okkar hefur gert okkur það svolítið ljóst að það þurfi talsvert mikið til fyrir hann að taka ákvörðun um það að leggja peninga inn í félagið til áframhaldandi uppbyggingar. Ég skil það mjög vel, við erum náttúrulega með ríkissjóð sem er undir þrýstingi,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í nýjum þætti Flugvarpsins.
Þrátt fyrir að hafa trappað niður fjárfestingar segist hann vilja halda dampi við uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og „horfa í gegnum þokuna“ m.a. með það fyrir augum að efla flugvöllinn áður en Icelandair hefur tekið í notkun flestar af þeim Airbus þotum sem félagið hefur pantað.
Fært fjárfestingar niður um 15-20%
Á aðalfundi Isavia í lok mars sl. lýstu Sveinbjörn og Kristján Þór Júlíusson, þáverandi stjórnarformaður félagsins, þörf á auknu hlutafé ef metnaðarfull uppbyggingaráætlun á Keflavíkurflugvelli ætti að haldast óbreytt. Kristján Þór sagði efnahagsreikning félagsins að óbreyttu ekki standa undir áætluðum framkvæmdakostnaði vegna skilyrða í lánssamningum.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra sagði hins vegar í viðtali við Hluthafann í maí að mikilvægt væri fyrir Isavia að ná fram aukinni arðsemi og að óvissa um ferðalög yfir Atlantshafið minnki áður en ríkið setji meira hlutafé í Isavia.
Isavia fjárfesti alls fyrir um 55,4 milljarða króna á Keflavíkurflugvelli á árunum 2020-2024. Áætlun félagsins í byrjun þessa árs gerði ráð fyrir Isavia myndi fjárfesta í framkvæmdum á vellinum fyrir 86 milljarða króna á árunum 2025-2030, eða ríflega 14 milljarða á ári á meðaltali.
Ætla má því að fjárfestingaáætlunin fyrir næstu ár hafi því verið dregin niður um 15-20%.

Ekki að fara að banka upp á hjá fjármálaráðherra
Sveinbjörn segir að frá aðalfundinum í mars hafi forsendur Isavia um fjölda ferðamanna breyst talsvert, t.d. vegna falls Play og þar sem Icelandair sé að halda aðeins að sér höndum til að einblína á bætta arðsemi. Að hans sögn hefur svokölluð eftirspurnarlína, þ.e. spá um fjölda ferðamanna, til næstu tíu ára hliðrast niður á við um sem nemur einni og hálfri milljón farþega á ári.
Breyttar forsendur um fjölda farþega hafi gefið Isavia rými til að hægja aðeins á fjárfestingum á flugvellinum án þess að það hafi mikil áhrif á þjónustustig.
„Það sem hefur gerst síðustu mánuði er það að okkur hefur tekist það að gera það auðveldara að fara inn í næstu ár á eigin efnahagsreikningi. Eins og staðan er í dag þá er ég ekkert að banka upp á hjá fjármálaráðherra og biðja um peninga.“
Spurður nánar hvort hlutafjáraukning væri ekki skynsamleg ráðstöfun fyrir ríkið, svarar Sveinbjörn á þann veg að það væri í það minnsta auðveldasta leiðin fyrir Isavia að leita til eigandans.
„Það er rosalega auðvelt að setjast fyrir framan fjármálaráðuneytið og sýna bara svart á hvítu hver samfélagslega arðsemin yrði af þeim milljarði sem færi frá fjármálaráðuneytinu, þ.e. úr ríkissjóði, til okkar í aukið hlutafé – t.d. gagnvart vexti og flugtengingum. Það er ekkert mál að teikna upp þessa mynd og hún yrði alveg glæsileg.
En svo getur maður líka farið hina leiðina þegar það er aðeins ýtt á mann til baka, að setjast niður og reyna að finna sína eigin leið út úr ógöngunum.“
Funda með lánveitendum eftir áramót
Sveinbjörn, sem hefur stýrt Isavia frá árinu 2019, segir að félagið stefni að því semja við lánveitendur Isavia um að hliðra til lánakvöðum.
Með því horfi Isavia á að skapa svigrúm til að halda dampi við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, þó fjárfestingar verði aðeins minni en gert var ráð fyrir í upphafi þessa árs.
„Við erum búin að stilla upp sögunni til næstu ára þannig að ég treysti mér alveg – sem er eitt af því sem ég og framkvæmdastjóri fjármála þurfum að gera strax eftir áramót – til að setjast niður með okkar lánveitendum og segja söguna þar sem við förum út fyrir þessar lánakvaðir og með hvaða hætti við ætlum á næstu 3-5 árum að fara innan þeirra aftur.”
Næsta framkvæmd á teikniborðinu þegar kemur að stækkun Keflavíkurflugvallar snýr að landganginum sem tengir saman norður- og suðurbyggingu flugvallarins. Stækka á suðurbygginguna til norðurs inn í landganginn.
„Þá þurfum við að gera bráðabirgða landgang og þetta hefur áhrif á flæði. Þannig það er að ákveðnu leyti heppilegt að framkvæma á sama tíma og þú ert ekki að taka á móti gríðarlega miklum vexti [af farþegum].
Það er ein af ástæðunum líka fyrir því að mig langar að halda dampi núna til þess að vera komin með þá framkvæmd í notkun þegar nýju Airbus vélarnar eru komnar til leiks. Þetta er allt samhangandi. Þá þurfum við líka að vera aðeins tilbúin að horfa í gegnum þokuna.“
Borðleggjandi í faraldrinum en reyna nú að standa á eigin fótum
Hlutafé Isavia var aukið um 15 milljarða króna á árunum 2021 og 2022 til að mæta rekstrartapi í Covid-faraldrinum og styðja við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.
Sveinbjörn segir að sú ákvörðun hafi verið „algjörlega borðleggjandi fyrir alla aðila“. Hlutafjáraukningin hafi gert það að verkum að félagið gat hafið framkvæmdir tveimur árum fyrr en ella, auk þess sem hún hafi haft góð áhrif á atvinnuástand á Suðurnesjunum.
„En núna þá erum við að leita leiða til þess að gera þetta meira á eigin fótum.“
Hlynntur því að fá ný fjárfesta að Isavia
Í þættinum ræddi Sveinbjörn einnig um persónulega skoðun sína um að það gætu falist verðmæti í því að fá erlenda fjárfesta með þekkingu á rekstri flugvalla inn í eigendahóp Isavia.
„Ég hef heyrt frá kollegum mínum úti í heimi að í þeim tilfellum þar sem það eru einkaaðilar í hluthafahópi viðkomandi flugvalla þá nærðu bara öðruvísi tengingu við flugvelli sem eru í sama eignasafni hjá viðkomandi fjárfesti. Það eru þá komnir svona sameiginlegir hagsmunir.
Þar er aðgangur að reynslu, þekkingu og annað sem ég veit að mun nýtast okkur vel. Það er alveg klárt mál.
Sveinbjörn ræðir um fjárfestingar Isavia vegna stækkunar Keflavíkurflugvallar frá 29:20-40:40.
Heimild: Vb.is












