
Nágrönnum Sæmundarhlíðar við Holtsgötu 10 í Reykjavík hugnast síður en svo áform borgarinnar um að rífa gamla húsið og byggja fjölbýlishús í stað þess.
Í athugasemdum í skipulagsgátt færa nágrannar rök fyrir því að fyrirhugað fjölbýlishús á horninu muni ekki bara stinga í stúf heldur sé það óþarft þar sem margar íbúðir séu lausar í nágrenninu.
Eyjólfur Már Sigurðsson, íbúi á Öldugötu 53, bendir á í umsögn sinni að heildarútlit fjölbýlishússins sé ekki í neinu samræmi við þau hús sem fyrir eru á svæðinu. „Auk þess er byggingamagnið allt of mikið fyrir þetta svæði sem er nú þegar meðal þeirra þéttbýlustu í Reykjavík.
Eins og fram hefur komið í öðrum athugasemdum hér þá er nú þegar komið að þolmörkum innviða í hverfinu og hörgull á bílastæðum er viðvarandi vandamál,“ skrifar Eyjólfur.
Heimild: Mbl.is











