Formaður fjárlaganefndar segir gert ráð fyrir að Miðstöð um öryggisráðstafanir opni 2027. Hægt verði að vista um 16 einstaklinga þar. Stofnunin er hugsuð fyrir einstaklinga sem hafa lokið afplánun í fangelsi en eru taldir hættulegir samfélaginu.
Gert er ráð fyrir því að Miðstöð um öryggisráðstafanir verði tekin í notkun árið 2027. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður Flokks fólksins.
„Þá mun fjármagn til rekstrar vera orðið tryggt, segir Ragnar Þór. Meirihluti fjárlaganefndar lagði til í áliti sínu tveggja milljarða króna hækkun á fjárlögum til að koma stofnuninni á fót.
„Við teljum þetta nægja til að koma verkefninu vel af stað. Það eru fjármunir líka inni í fjármálaáætlun, þannig að það er búið að taka frá eða tryggja um 3,2 milljarða í verkefnið,“ segir Ragnar Þór.
Framkvæmdir hefjist von bráðar
Til stendur að stofnunin rísi á Hólmsheiði og á meðal annars að hýsa einstaklinga sem lokið hafa afplánun en eru þó taldir hættulegir samfélaginu.
Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri undirrituðu viljayfirlýsingu um að tryggja ríkinu lóð undir stofnunina í síðasta mánuði. Lóðin er á landi Reykjavíkurborgar á Hólmsheiðarsvæðinu.
Bygging á stofnuninni geti þannig hafist á næstunni. „Við væntum þess að þetta geti loksins farið af stað mjög fljótlega,“ segir Ragnar Þór.
1,6 milljarður á ári í rekstrarkostnað
Alls er gert ráð fyrir að 16 einstaklingar geti verið vistaðir á stofnuninni í einu. Til stendur að ráðinn verði forstöðumaður yfir stofnuninni en að ráðherra félagsmála fari með yfirstjórn yfir henni.
Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við rekstur stofnunarinnar á ári verði 1,6 milljarðar á ári. Sá kostnaður skiptist að hluta til á milli ríkisins og jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
„Við verðum búin að tryggja þá fjármuni áður en stofnunin opnar,“ segir Ragnar Þór.
Heimild: Ruv.is












