
Bygging fjölbýlishúss með 12 íbúðum á Reyðarfirði er fyrsta skrefið í viljayfirlýsingu sem Fjarðabyggð og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) undirrituðu í síðustu viku.
Framundan eru einnig athuganir á húsnæðismálum í nágrenni Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað. Formaður skipulags- og framkvæmdanefndar segir mesta eftirspurn eftir minni íbúðum til leigu.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður bygging fjölbýlishúss við Búðareyri 12 fyrsta verkið. Á vegum Fjarðabyggðar hefur verið unnið að skipulagi svæðisins að undanförnu. Samkvæmt lýsingu að skipulagi er gert ráð fyrir að þar rísi 12 íbúðir í þremur húsum. Frestur til að gera athugasemdir við skipulagslýsinguna rennur út á morgun.
Húsið stendur við hlið Skála, búsetukjarna fyrir fólk með fötlun sem tekinn var í notkun í sumar. Með honum losnaði um fimm íbúðir í Sunnugerði á Reyðarfirði sem nú hefur verið samið um að HMS taki yfir.
Efla svæðið í kringum sjúkrahúsið
Eins losnaði um tvær íbúðir við Bakkabakka í Neskaupstað. Yfirlýsingin felur það í sér að HMS, Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) og Fjarðabyggð vinni saman að því að fara yfir íbúðir í nágrenni Umdæmissjúkrahússins.
Þar undir eru meðal annars framkvæmdir við Breiðablik, íbúðir aldraðra, eða önnur vinna á svæðinu. „Það stendur til að efla svæðið í kringum sjúkrahúsið og nota undir tengda starfsemi,“ segir Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður skipulags- og framkvæmdanefndar Fjarðabyggðar.
Mest ásókn í leiguíbúðir
Samkvæmt tölum úr gagnagrunni HMS eru sem stendur 36 íbúðir í byggingu í Fjarðabyggð. „Það hefur verið byggt töluvert síðan 2019. Þá var komin uppsöfnuð þörf. Staðan er samt mismunandi eftir byggðakjörnum. Á Reyðarfirði hefur gengið vel þótt seinni hluta þessa árs hafi hægst á eins og annars staðar.“
Þuríður segir einkum eftirspurn eftir minni leiguíbúðum og nefnir sem dæmi að allar íbúðirnar í nýju fjölbýlishúsi við götuna Óseyri á Reyðarfirði hafi fyllst strax. „Í því húsi eru litlar íbúðir sem sýnir eftirspurnina. Eignir til sölu virðast fara hægar enda er lánaumhverfið erfitt.
Hingað til hefur verið mest þörf á stærstu stöðunum okkar, á Reyðarfirði og síðan í Neskaupstað. Það virðist enn dálítið í að við náum að metta markaðinn, það er alls staðar atvinna í boði. Undirbúningur að Orkugarði Austurlands er enn í gangi og við viljum búa okkur í haginn ef af þeirri uppbyggingu verður.“
Á vegum Fjarðabyggðar stendur yfir könnun á íbúðaþörf fyrir 60 ára og eldri. Húsnæði fyrir þann hóp er eitt af því sem komið er inn á í viljayfirlýsingunni sem næstu skref. „Það er ekki til nægt húsnæði fyrir þann aldurshóp og á meðan bíður yngra fólk eftir stærri húsum. Við erum að reyna að koma þessum kynslóðaskiptum af stað. Við sjáum hvað þarfagreiningin leiðir í ljós og skoðum svo málin.“
Skipulagsbreytingar til að tryggja nóg af lóðum
Til að auðvelda íbúðabyggingu hefur verið unnið að skipulagsmálum í flestum kjörnum Fjarðabyggðar til að tryggja lóðir. Fyrr í haust var auglýst nýtt skipulag með lóðum inni í Eskifjarðardal, undanfarin misseri deiliskipulag á bæði Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og í sumar tillaga um að iðnaðarstarfsemi í miðbæ Reyðarfjarðar verði víkjandi og þar komi íbúðir í staðinn.
„Stefnan er að koma iðnaðinum út úr miðbænum til að byggja upp miðbæjarkjarna, sem sannarlega vantar á Reyðarfirði. Við ætlum líka að halda áfram með deiliskipulag miðbæjar á Eskifirði. Það er á fjárhagsáætlun næsta árs. Við eigum mikið af lausum lóðum á Reyðarfirði og Eskifirði auk lóða á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Staðan er erfiðari í Neskaupstað. Þar eru lóðir að klárast, meðal annars vegna ofanflóðahættusvæða.“
Síðasta atriðið í viljayfirlýsingu er að Fjarðabyggð verði eitt af fyrstu sveitarfélögunum sem nýti stafrænan vettvang sem HMS er að byggja upp fyrir byggingar. „Þar verður heildaryfirsýn yfir framkvæmdir frá skóflustungu fram að lokaúttekt og það er mjög spennandi að fá að taka þátt í því,“ segir Þuríður Lillý að lokum.
Heimild: Austurfrett.is











