
Framkvæmdir við fjóra kafla borgarlínunnar hefjast á næsta ári, en hingað til hafa aðeins framkvæmdir hafist við landfyllingar og sjóvarnir vegna Fossvogsbrúar. Munu borgarbúar meðal annars sjá framkvæmdir við Laugaveg, Hlemm og í nágrenni Háskólans í Reykjavík.
Vinnu við umhverfismat og aðalskipulagsbreytingar vegna fyrsta hluta borgarlínunnar er lokið. Deiliskipulagsgerð er á nokkrum stöðum klár en stendur víðast hvar yfir. Fyrsti hlutinn nær frá Ártúnshöfða, um Suðurlandsbraut, miðborgina, svæði Háskóla Íslands, Landspítala og Háskólans í Reykjavík, yfir Fossvogsbrú og í Hamraborg.
Áætlað er að þessi fyrsta lota verði tilbúin árið 2031, en innviðir líkt og sérakreinar munu nýtast strætó strax og framkvæmdum er lokið við hvern hluta.

Aðalskipulagsvinnu lokið
Í tilkynningu á vef borgarlínuverkefnisins kemur fram að Skipulagsstofnun hafi staðfest umhverfismatsskýrslu fyrir 1. lotu verkefnisins. Þá er tekið fram að bæjarstjórn Kópavogs hafi samþykkt rammahluta aðalskipulags bæjarins í maí og að borgarstjórn Reykjavíkur hafi samþykkt breytingu á aðalskipulagi borgarinnar í júní.
Deiliskipulagi fyrir 1. lotu er skipt upp í nokkra mismunandi hluta, en það er gert þar sem borgarlínan er á sumum stöðum hluti af stærra skipulagi, eins og til dæmis við Hlemm og nýja Landspítalann. Þá þurfi einnig að samræma framgang hönnunar mismunandi hluta og framkvæmdatíma.
Deiliskipulag þegar til fyrir nokkur svæði
Þau svæði þar sem fyrir liggja samþykktir um borgarlínu í núgildandi deiluskipulagi eru Ártúnshöfði svæði 1, Hlemmur, Nýi Landspítali háskólasjúkrahús, Nauthólsvík og Fossvogsbrú.
Deiliskipulag fyrir borgarlínu um Laugaveg á milli Kringlumýrarbrautar og Katrínartúns og um nyrðri hluta Nauthólsvegs var samþykkt í borgarráði í júlí. Deiliskipulag fyrir borgarlínu um Stórhöfða og neðra svæði Ártúnshöfða var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í ágúst.
Þá var deiliskipulagsbreyting fyrir HR-svæðið samþykkt í borgarráði í október, en borgarlínan mun liggja um svæðið. Að lokum var deiliskipulagsbreyting fyrir Kársneshöfn samþykkt í skipulags- og umhverfisráði Kópavogs í október. Mun borgarlínan liggja um Vesturvör til að tengja við Fossvogsbrú.
Á öllum þessum köflum sem taldir hafa verið upp er forhönnun lokið og er á sumum köflum jafnvel lokið við verkhönnun.

Byrja framkvæmdir á næsta ári
Í ljósi þessa er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við fjóra kafla á lotu 1 á komandi ári, en það eru:
- Efri hluti Stórhöfða
- Laugavegur á milli Kringlumýrarbrautar og Katrínartúns
- Borgarlína um Hlemm
- Nauthólsvegur og lega borgarlínu í gegnum HR-svæðið sem og Fossvogsbrú ásamt tengingum að henni norðan megin, þ.e. meðfram flugvallargirðingunni við Nauthólsvík.
Heimild: Mbl.is











