„Nýleg rannsókn Stefáns Hrafns Jónssonar, prófessors við HÍ leiðir í ljós að varla sé byggt það fjölbýlishús á Íslandi sem eigendur upplifi án galla. Í mörgum tilvikum bregðast verktakar vel við og laga það sem að er en í um 40% tilvika bera eigendur kostnaðinn sjálfir. Hann getur hlaupið á milljónum,“ segir Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs, í aðsendri grein á Vísir.is.
Helga segir að þessu valdi pólitískar ákvaðarnir um veikingu eftirlits með mannvirkjagerð:
„Umhverfi mannvirkjagerðar hefur verið mótað með pólitískum ákvörðunum sem m.a. fela í sér veikingu eftirlits sem leiðir til þess að lögbundnum lágmarkskröfum við mannvirkjagerð er ekki fullnægt. Þetta er kerfi sem grípur ekki neytendur heldur skilja þá eftir í súpunni þegar fúskið fær að viðgangast.“
Helga útskýrir í grein sinni að bygging mannvirkja sé reglusett með fjölda staðla en eftirliti er ábótavant og aðgengi þeirra sem þurfa á stöðlunum að halda sé takmarkað. Staðlarnir eru lögbundnir samkvæmt byggingarreglugerð en ríkið hefur aðeins kostað lítinn hluta af vinnunni sem innleiðing þeirra hefur í för með sér. Hafa aðilar sem ber að fara eftir reglugerðinni því ekki aðgang að stöðlunum:
„Staðlaráð gerði fyrir örfáum árum samning við HMS og fleiri opinberar stofnanir sem sinna markaðsgæslu, um verulega aukið aðgengi að staðlasafninu á mjög hagstæðu verði til að tryggja að stofnunin hefði aðgang að stöðlum sem eftirlit og opinber markaðsgæsla byggði á en HMS taldi sig ekki hafa fjármagn til að kaupa staðla sem verkefni stofnunarinnar eru byggð á. Við það margfaldaðist notkun þessarra stofnana.
Stjórnvöld hafa hins vegar ekki svarað spurningunni um það af hverju þeir sem hlíta þurfa löggjöfinni sem vörðuð er stöðlum, hafa ekki aðgang að þeim hluta hennar. Er þá átt við verktaka, hönnuði, eftirlitsaðila, seljendur byggingarvara og alla þá sem koma að mannvirkjagerð.“
Þekkingarleysi og stórir gallar
Helga segir í grein sinni:
„Undirrituð hefur reynslu af þekkingarleysi erlendra verkamanna sem fengu ekki fræðslu og þjálfun af hálfu vinnuveitanda síns, verktakans, áður en hafist var handa við viðhald og endurgerð. Þar var reyndar um minniháttar kostnað að ræða í samanburði við tólf íbúða blokk í litlu plássi úti á landi þar sem gallar pr. íbúð eru metnir á annan tug milljóna að sögn kunnugra.
Það tjón dekka engar tryggingar hér á landi eins og þær myndu gera t.d. í Danmörku. Það er pólitísk ákvörðun í sjálfu sér að búa þannig um hnútana að gefinn sé afsláttur frá lögbundnum kröfum eins og dæmi eru um, að eftirliti sé verulega ábótavant, m.a. vegna sveltistefnu og ganga frá neytendavernd á íbúðamarkaði þannig að venjulegt fólk situr uppi með Svarta Pétur með tilheyrandi álagi, andlegu og fjárhagslegu.“
Skorti á eftirliti stendur bóta með nýjum samstarfsvettvangi í mannvikjarrannsóknum og prófunum sem ber heitið BURÐUR. Hlutverk Burðar er að efla og samræma rannsóknir og prófanir í húsnæðis- og mannvirkjagerð á Íslandi. Að vettvanginum koma stjórnvöld, menntastofnanir og atvinnulíf.
Helga fagnar stofnun BURÐAR sem hún segir vera mikið framfaraskref en hefur samt efasemdir um að nægilegt eftirlit og gæði séu tryggð. Staðlar séu frábær leið til að efla og tryggja gæði í mannvirkjagerð og skorar hún á húsnæðismálaráðherra að kanna möguleikann á því að ríkið fjármagni aðgengi viðkomandi aðila að stöðlum sem geta tryggt gæði í mannvirkjaiðnaði.
Grein Helgu má lesa hér.
Heimild: Dv.is












