
Áform eru uppi um að reisa nýja aðstöðu til sjó- og gufubaða í landi Þórustaða í Holtsfjöru í Önundarfirði undir heitinu Hvítisandur. Kostnaður við framkvæmdina er áætlaður 1,5 milljarðar króna. Verkefnið er í höndum Hvítasands ehf. sem hyggst senda deiliskipulagstillögu til Ísafjarðarbæjar í nóvember. Ef samþykki fæst gætu framkvæmdir hafist næsta sumar, eftir varptíma æðarfugls.
Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Hvítasands ehf., segir í samtali við BB.is sem greinir frá, að markmiðið sé að skapa sjálfbæra upplifun í einstöku náttúruumhverfi.
„Staðurinn er einstök náttúruperla sem kallar á hógværa, sjálfbæra og vandaða nálgun hvað framkvæmdir og rekstur varðar. Böðin verða einn megin segull í ferðamennsku á Vestfjörðum og munu sérstaklega skapa ný sóknarfæri í vetrarferðamennsku auk þess að þjóna heimafólki á svæðinu. Þau byggja á sjálfbærri nýtingu á varmaorku úr sjó, einstakri náttúrufegurð og þessari dásamlegu gullnu skeljasandsfjöru sem nú þegar er miðstöð sjóbaða á norðanverðum Vestfjörðum,“ segir hann.
Fuglaskoðunarhús og flugbraut verður bílastæði
Byggingin verður felld inn í melgresishól við fjöruna, og gamla flugbrautin í Holti nýtt sem bílastæði. Þaðan munu gestir ganga 100 metra stíg að baðhúsinu. Á svæðinu verður einnig fuglaskoðunarhús þar sem fylgjast má með æðarvarpi og fuglalífi.
Í húsinu verður móttaka, veitingastaður fyrir 50 gesti, tveir barir, starfsmannaaðstaða og tólf einkabúningsklefar auk hefðbundinna klefa. Aðstaðan mun rúma 250 manns yfir sumarið, með um 30 starfsmönnum í vinnu. Að vetri til verður svæðið rekið í minna mæli á tveimur til fjórum starfsmönnum, með fjörutíu manna potti, gufuböðum og bar sem opinn verður síðdegis og á kvöldin. Reiknað er með nítján ársverkum hjá fyrirtækinu.
Sjó- og gufuböð með vestfirskum blæ
Sjóbaðslaug, upphituð með varmadælu úr sjó, verður 250 fermetrar að stærð, lítið eitt minni en Skógarböðin á Akureyri sem voru opnuð í maí árið 2022. Gert er ráð fyrir fimm mismunandi sánum; gufugusu með gusumeistara, saltgufu með sjávarsalti, ilmgufu með vestfirskum plöntum, viðburðasánu fyrir allt að sextíu manns og hefðbundna finnska viðarsánu á bryggju úti í firðinum. Hönnunin tekur mið af harðfiskhjöllum á svæðinu, meðal annars Kaupfélagshjallinum á Flateyri.
Hvítisandur verður staðsettur við nýjan heilsárshringveg um Vestfirði sem opnar 2027 og á leiðinni milli Ísafjarðar og Dynjanda, einnar vinsælustu náttúruperlu Vestfjarða.
Hvítisandur ehf. stendur að framkvæmdinni. Félagið er í eigu Blævængs ehf., Björns Björnssonar og Jónínu Eyju Þórðardóttur á Þórustöðum, Óttars Guðjónssonar og Ragnars Björgvinssonar. Blævængur er í eigu Áslaugar Guðrúnardóttur og Runólfs Ágústssonar.
Um væri að ræða fyrstu sjóböðin eða lón á Vestfjörðum en þau má finna í flestum landshlutum. Nýlega var opnað baðlón í Laugarási í Biskupstungum til viðbótar við Bláa lónið, Sky Lagoon, Krauma í Borgarfirði, Jarðböðin á Mývatni, Skógarböðin á Akureyri, Vök á Egilsstöðum og þá eru fjallaböð í Þjórsárdal á lokastigum hönnunar.
Heimild: Visir.is











