Home Fréttir Í fréttum Fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar kynntur

Fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar kynntur

24
0
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra kynntu fyrsta húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar.

Fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar var kynntur á blaðamannafundi í Úlfarsárdal í gær. Pakkinn felur í sér aðgerðir sem fjölga íbúðum, lækka verð og gera húsnæðisstuðning markvissari. Þá verður dregið úr hvata til að safna íbúðum og ráðist í tímabæra tiltekt í húsnæðiskerfinu.

Með þessum aðgerðum vonast ríkisstjórnin til að skapa svigrúm fyrir Seðlabanka Íslands til að meta á ný hvort slaka megi á lánþegaskilyrðum bankans.

Þá hefur ríkisstjórnin þegar hafið vinnu í samráði við Seðlabankann til að eyða óvissu á lánamarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar í svokölluðu vaxtamáli.

Húsnæðispakkinn felur í sér eftirtaldar aðgerðir:

Viðbragð við dómi Hæstaréttar

Óvissu eytt á lánamarkaði

  • Með samráði við Seðlabanka Íslands um að hefja eins fljótt og auðið er birtingu vaxtaviðmiðs sem getur legið til grundvallar verðtryggðum lánum

Fleiri íbúðir á lægra verði

Fleiri almennar íbúðir

  • Með hærri stofnframlögum strax til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga

Stórfelld einföldun á regluverki

  • Með einfaldari byggingarreglugerð, skilvirkara eftirliti og stafrænum byggingarleyfum

Nýtt 4000 íbúða hverfi í Úlfarsárdal

  • Með nýrri nálgun sem byggir á samvinnu Reykjavíkurborgar og verkalýðshreyfingarinnar

Markvissari húsnæðisstuðningur

Hlutdeildarlánakerfi sem virkar

  • Með fleiri hlutdeildarlánum – mánaðarlegri úthlutun, tryggri fjármögnun og rýmri skilyrðum

10 ára skattfrjáls séreign inn á íbúðalán

  • Með því að almenn heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól íbúðalána verði gerð varanleg og fyrirsjáanleg – þannig að allir eigendur íbúða geti nýtt sér þessa heimild í 10 ár
  • Efnt verður til samráðs um leiðir til að auka þátttöku almennings í séreignarsparnaði

Tiltekt í húsnæðiskerfinu

Minni hvati til að safna íbúðum

  • Með því að draga úr skattfrelsi söluhagnaðar þeirra sem eiga margar íbúðir, minnka skattaafslátt leigutekna og koma í veg fyrir leiguverðshækkun á fyrstu 12 mánuðum tímabundinna leigusamninga
  • Með því að heimila sveitarfélögum að leggja fasteignagjaldsálag á byggingarlóðir sem eru látnar standa auðar í þéttbýli
  • Með því að afgreiða Airbnb-frumvarpið á Alþingi sem takmarkar skammtímaleigu við lögheimili og eina aðra fasteign utan þéttbýlis

Dregið úr vægi verðtryggingar á Íslandi

  • Með reglum um lágmarkshraða afborgana til að minnka vægi verðtryggðra íbúðalána sem taki gildi á árinu 2027

Tiltekt í stjórnsýslu húsnæðismála

  • Með því að selja tugmilljarða eignir Húsnæðissjóðs til að lækka skuldir ríkisins
  • Með því að afgreiða frumvörp á Alþingi um skráningarskyldu leigusamninga og sameiningu Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra: Ríkisstjórn sem þorir

„Fyrsti húsnæðispakkinn sýnir að þetta er ríkisstjórnin sem þorir og framkvæmir. Við erum að ganga í verkin og grípa til aðgerða sem hefur verið talað um svo árum skiptir,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

„Vegna ófyrirséðra áfalla í atvinnumálum hyggst ríkisstjórnin ekki herða á aðhaldi í ríkisfjármálum að svo stöddu. Hins vegar munum við gera meira hraðar í húsnæðismálum, eins og við höfum sagt – til að tryggja fólki öruggt húsnæði um leið og við vinnum gegn verðbólgu.“

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra: Sanngjarnara húsnæðisverð

„Aðgerðir okkar stuðla að uppbyggingu fleiri íbúða og að sanngjarnara húsnæðis- og leiguverði,” segir Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra.

„Við erum að fjölga íbúðum með hærri stofnframlögum, fleiri hlutdeildarlánum, stórfelldri einföldun regluverks og nýju hverfi í Úlfarsárdal. Við erum að útfæra séreignarsparnaðarleiðina þannig að allir íbúðareigendur geti nýtt heimildina í 10 ár. Þetta úrræði verður markvissara með því að beina stuðningnum sérstaklega til fólks á fyrstu árum þess á húsnæðismarkaði. Um leið sköpum við skattalega hvata til að fjölga íbúðum á markaði, ráðumst í tiltekt í stjórnsýslu húsnæðismála og drögum skipulega úr vægi verðtryggingar á Íslandi.“

Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra: Óvissu eytt um lánveitingar

„Alvarlegustu afleiðingarnar af dómi Hæstaréttar í vaxtamálinu eru mikil óvissa um lánveitingar til íbúðakaupa til skemmri tíma litið. Við viljum eyða þeirri óvissu í nánu samráði við Seðlabankann. Sú vinna er þegar hafin og við bindum vonir við að henni ljúki á næstu dögum,“ segir Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.

„Þessi aðgerðapakki snýst allur um að tryggja nægt framboð af húsnæði á hóflegu verði til að fylla upp í það gat sem er á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir neikvæð áhrif á íbúðauppbyggingu.“

Annar húsnæðispakki kynntur á nýju ári

Fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar er afrakstur vinnu síðustu mánaða þvert á ráðuneyti, með þingmannahópi um húsnæðismál og vinnustofu félags- og húsnæðismálaráðuneytisins.

Stefnt er að því að annar húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar verði kynntur á fyrri hluta ársins 2026 og muni meðal annars snúa að því hvernig ríkið getur liðkað fyrir uppbyggingu nýrra íbúðahverfa – eftir samtal við sveitarfélögin og vinnustofu félags- og húsnæðismálaráðuneytisins um þetta efni. Þar verður einnig tekið á uppbyggingu íbúða á ríkislóðum, breytingu ríkiseigna í íbúðir og regluverki á leigumarkaði eftir að frumvarp um skráningarskyldu leigusamninga hefur hlotið afgreiðslu á Alþingi.

Nánar um aðgerðirnar – fylgiskjal

Heimild: Stjornarradid.is