Home Fréttir Í fréttum Rýmdu blokkir í Osló vegna jarðfalls

Rýmdu blokkir í Osló vegna jarðfalls

23
0
Jarðfallið er við Carl Berners-torg í Osló. Rýma hefur þurft aðliggjandi íbúðarhús. NRK – Torstein Georg Bøe

Lögreglan í Osló í Noregi hefur rýmt nokkrar blokkir og nemendagarða við í grennd við Carl Berners-torg. Nokkur hundruð manns voru flutt í fjöldahjálparstöð í gær.

Um þrjú til fjögur hundruð manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna jarðfalls við Carl Berners-torg í Osló í Noregi. Hætta er á frekari skriðum.

Thomas Broberg, lögreglustjóri, segir hættu á að stórir steinar fari af stað verði meira jarðfall. Rýma þurfti nokkrar blokkir og nemendagarða við Hasleveien nærri Carl Berners-torgi.

„Þetta er mjög stór aðgerð,“ sagði Broberg.

Monica Engebretsen, yfirmaður hjá lögreglunni, segir jarðfræðinga hafa skoðað skriðuna og talið hana óstöðuga. Þeir meti stöðuna aftur á morgun en einhver tími gæti liðið þar til íbúar fái að snúa aftur til síns heima.

Samkvæmt fréttamanni norska ríkisútvarpsins, NRK, sem er á staðnum er hreyfing í jörðinni.

Neðanjarðarlestarkerfið liggur undir svæðinu þar sem jarðfallið varð og starfsmenn eru á leið þangað til að rannsaka ástand þess. Tone Tuhus, upplýsingafulltrúi Sporveien, fyrirtækisins sem rekur neðanjarðarlestarkerfið, segir það ganga eins og venjulega í bili.

Búið er að koma upp fjöldahjálparstöð á Radisson Blu-hóteli þar sem íbúar sem þurftu að rýma geta gist. Tvö til þrjú hundruð manns voru flutt þangað.

Svæðið er mjög óstöðugt og hætt er við frekari skriðuföllum fari einhver inn á það. Lögregla vaktaði svæðið í nótt.

Heimild: Ruv.is