Home Fréttir Í fréttum Birna Ósk nýr for­stjóri Húsa­smiðjunnar

Birna Ósk nýr for­stjóri Húsa­smiðjunnar

35
0
Birna Ósk Einarsdóttir, forstjóri Húsasmiðjunnar Ljósmynd: Aðsend mynd

Birna Ósk Einarsdóttir hefur verið ráðin nýr forstjóri Húsasmiðjunnar.

Stjórn Húsasmiðjunnar hefur ráðið Birnu Ósk Einarsdóttur sem forstjóra félagsins. Hún tekur við starfinu 1. janúar næstkomandi.

Magnús Guðmann Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, mun starfa áfram sem forstjóri fram að þeim tíma. Hann tók tímabundið við stöðu forstjóra í sumar.

Birna starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá APM Teminals, dótturfélagi A.P. Møller – Mærsk, sem sérhæfir sig í hafnarrekstri um allan heim og er eitt stærsta félag sinnar tegundar í heiminum. Áður var Birna Ósk framkvæmdastjóri yfir markaðs-, þjónustu og vöruþróunarmálum hjá Icelandair, Landsvirkjun og Símanum.

Birna Ósk situr jafnframt í stjórnum Skeljar fjárfestingarfélags, Mílu og Almannaróms.

Hún er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi frá IESE háskóla í Barcelona.

„Það eru spennandi tímamót að koma aftur til Íslands og taka við jafn öflugu teymi og Húsasmiðjan býr yfir. Fyrirtækið spilar stórt hlutverk á bæði einstaklings- og fyrirtækjamarkaði og það eru fjölmörg tækifæri til sóknar fyrir þetta rótgróna fyrirtæki. Eftir fjögur frábær ár hjá APMT hlakka ég mikið til að koma heim að takast á við þetta skemmtilega verkefni,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir, forstjóri Húsasmiðjunnar.

„Við erum ánægð að fá Birnu Ósk til liðs við okkur og hlökkum til að halda vexti og þróun félagsins áfram með hana í stafni og styrkja enn frekar þjónustu félagsins og sterkt samband við viðskiptavini um land allt. Þrátt fyrir að hefja ekki formlega störf fyrr en á nýja árinu, verður Birna Ósk viðloðandi rekstur Húsasmiðjunnar héðan í frá og mun taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku með stjórnendateymi félagsins næstu vikur,“ segir Klaus Hadsbjerg, stjórnarmaður í Húsasmiðjunni.

Heimild: Vb.is