Minjastofnun hefur kallað eftir skýringum frá Reykjavíkurborg á því hvers vegna samþykkt var að rífa að hluta og breyta elsta húsinu við Laugaveg. Minjastofnun frétti af málinu í síðustu viku og vill stöðva framkvæmdir.
Minjastofnun hefur krafið Reykjavíkurborg skýringa á hvers vegna ekki var leitað umsagnar stofnunarinnar þegar heimilað var niðurrif og breytingar á elsta húsinu við Laugaveg. Samkvæmt lögum ber að gera það.
Byggingafulltrúinn í Reykjavík samþykkti fyrir tveimur vikum heimild til að rífa húsið að hluta og endurgera framhús, stækka með viðbyggingu bakatil, innrétta verslun í kjallara og jarðhæð. Með hafi fylgt umsögn skipulagsfulltrúa og umsögn Minjastofnunar frá því í maí 2022.
Kom á óvart að heyra af afgreiðslu borgarinnar
Minjastofnun hefur skrifað borginni þar sem segir meðal annars að umsögn stofnunarinnar hafi á sínum tíma verið veitt á fyrirspurnarstigi og ekkert erindi hafi borist til umsagnar varðandi breytingar. Minjastofnun óskar eftir skýringum á málsmeðferðinni og fer fram á að allar framkvæmdir á lóðinni verði stöðvaðar á meðan málið er skoðað.
„Já, þetta kom okkur svolítið á óvart að heyra um þetta, heyra um þessar samþykktir bæði á deiliskipulagi og síðan að aðaluppdrættir væru í ferli. Húsið er friðlýst, sem er æðsta stig friðunar. Það er byggt 1848 sem þýðir að það var þá sjálfkrafa friðlýst á sínum tíma og allar breytinga á friðlýstum húsum þurfa að koma fyrir húsafriðunarnefnd og síðan að hljóta samþykki Minjastofnunar,“ segir Pétur H. Ármannsson sviðsstjóri húsaverndar-, umhverfis- og skipulagssviðs Minjastofnunar
Hann segir að á sínum tíma hafi verið rætt hvað ætti að gera við húsið og ýmsar hugmyndir og fyrirspurnir og komist að niðurstöðu um hvaða stefnu ætti að taka.
Var eitt veglegasta hús bæjarins
Húsið var byggt sem íbúðahús, eitt það veglegasta í bænum, En fljótlega upp úr 1900 var því breytt í verslunarhús – þar var verslunin Vísir í áratugi og oft kennt við. Stefnt var að því að færa þakefni, gafla og fleira í upprunalegt horf og taka burt seinni tíma viðbyggingar beggja vegna við. Áfram yrðu verslunargluggar og endurbæturnar miðuðust við hvenær húsið breyttist í verslunarhús.
„Þetta er það sem var fjallað um 2022 og allir jákvæðir og átti að eiga sér stað samráð við Minjastofnun um næstu skref, en við höfum ekki heyrt neitt meira um málið.“
Ýmislegt upprunalegt heilt
Þetta elsta hús við Laugaveg og eitt elsta hús miðborgarinnar sem enn stendur á sínum upprunalega stað hefur eðli málsins samkvæmt gengið í gegnum ýmsar breytingar á löngum tíma, en að sögn Péturs er ýmislegt heillegt í húsinu ennþá.
„Það er töluvert af viðum í risi hússins, þakviður og annað slíkt sem er enn þá upphaflegir, en það er nánast ekkert eftir af miðhæðinni, það er að segja verslunarhæðinni. Þar er búið að breyta gólfhæðum og framhliðin er algjörlega ný, eð seinni tíma. En síðan eru hlaðnar hleðslur í kjallara undir húsinu, sökkullinn undir það, hann er upphaflegur.“
Heimild: Ruv.is