Unnið er að undirbúningi nýrrar byggingar fyrir geðþjónustu Landspítalans sem nú er dreifð á nokkra staði. Bæta þarf skipulag geðþjónustu, segir forstjóri Landspítalans.
Bæta þarf aðgengi að geðþjónustu og skipulag hennar þarf að vera mun betra. Þetta segir Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans. Biðlistar séu of langir og sjúklingar og aðstandendur lýsi oft erfiðu aðgengi.
Runólfur var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann ræddi þar uppbyggingu á húsnæði geðþjónustu spítalans. Geðþjónusta Landspítalans er á nokkrum stöðum en til stendur að byggja nýtt húsnæði í Fossvogi. Ekki var hægt að koma nýju húsnæði fyrir við Hringbraut þar sem verið er að byggja upp nýjan spítala.

RÚV – Ragnar Visage
„Þá var ákveðið að reyna að finna stað í innan við fimm kílómetra radíus frá Hringbrautarsvæðinu. Þess vegna fannst þessi staður í Fossvogi sem ég tel vera ákjósanlegan. Það breytir ekki því að við þurfum að hafa bráðaeiningu inni á Hringbraut fyrir einstaklinga sem eru með bráðageðraskanir, jafnvel samhliða alvarlegan vefrænan sjúkdóm eða einstaklinga sem er óljóst hvað amar að.“
Það húsnæði sem nú hýsir geðþjónustu verður þá óþarft. Það er á nokkrum stöðum, þar á meðal í sögufrægu húsnæði.
„Ég geri ráð fyrir því að Kleppsspítali verði þá nýttur undir annars konar starfsemi í framtíðinni. Ég sé ekki fram á að Landspítali muni nýta Kleppspítala áfram,“ sagði Runólfur á Morgunvaktinni á Rás 1.
Heimild: Ruv.is