
Starfshópur um innviðafélag fyrir stórframkvæmdir skilar gögnum til ráðherra í lok næsta mánaðar, segir innviðaráðherra. Stóra áskorunin sé hve dreifbýlt landið er og því sé óraunhæft að fjármagna allar framkvæmdir með veggjöldum.
Undirbúningur fyrir stofnun innviðafélags fyrir stórframkvæmdir stendur enn yfir og stefnt er að því að starfshópur skili gögnum til ráðherra í lok október. Þau verða undirstaða frumvarps sem á að tryggja að fyrirkomulagið verði raunhæft og að fjárfestar vilji taka þátt í fjármögnun framkvæmda.
Þetta sagði Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sem hefur sagt standa til að kynna fyrirhugað innviðafélag í febrúar. Markmiðið sé að auka fyrirsjáanleika um stórframkvæmdir.
„Við höfum verið að skoða mögulega útfærslu á innviðafélagi og markmiðið er að lágmarka kostnað og áhættu ríkissjóðs. Þá er þetta spurning um gjöld; tekjuberandi innviði sem myndu fara inn í þetta félag,“ segir Eyjólfur.
Eyjólfur nefnir sem dæmi að Sundabraut verði fjármögnuð af veggjöldum. Hún verði eitt helsta forgangsverkefni nýs innviðafélags. Þá er einnig gert ráð fyrir þátttöku lífeyrissjóða og annarra fjárfesta.
„Við erum raunverulega að gera þetta fyrir þá, að þeir geti komið inn í þetta og þá verða að vera tekjur á móti. Annað hvort samkvæmt samningum við ríkissjóð og þá tekjur af veggjöldum.“
Áform um stofnun innviðafélags voru kynnt í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvernig fyrirkomulagið verður útfært.
Allt aðrar forsendur en víða erlendis
Eyjólfur segir helstu áskorunina vera hve dreifbýlt landið er og því sé erfitt að treysta á innheimtu veggjalda til að fjármagna framkvæmdir. Víða erlendis, til að mynda í Færeyjum, sé mun þéttbýlara og forsendur því allt aðrar.
„Þá er umferðin ekki nægilega mikil til að standa undir framkvæmdunum 100% þegar kemur að kostnaði. Ég sé fyrir mér blandaða leið. Það yrðu þá ríkissjóður, veggjöld og langtímafjárfestar, svo við séum ekki að taka þetta allt úr ríkissjóði.
Heimild: Ruv.is