Home Fréttir Í fréttum Felldu til­lögu um lækkun gatna­gerðar­gjalda

Felldu til­lögu um lækkun gatna­gerðar­gjalda

31
0
Ljósmynd: Aðsend mynd

Borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins óttast að marg­földun gjalda á bílastæði fæli byggingaraðila frá því að hafa bíla­kjallara í nýbyggingum.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að afturkalla allt að 100% hækkun gatnagerðargjalda í Reykjavík, var felld á fundi borgarstjórnar í dag.

Tillagan fól í sér að gatnagerðargjald í borginni yrði lækkað til samræmis við fyrra hlutfall í því skyni að draga úr byggingarkostnaði og verðbólgu.

Tillagan hlaut sex atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins en var felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Í byrjun árs ákvað meirihluti borgarstjórnar hækka gatnagerðargjöld um 85% fyrir fjölbýlishús, 33% á par- og raðhús og 38% á atvinnuhúsnæði. Breytt gjaldtaka tók gildi á 1. september síðastliðinn.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að í raun sé um meiri hækkun að ræða því með breytingunni verður einnig tekin upp gjaldtaka á bíla- og hjólageymslur. Að því gjaldi viðbættu megi reikna með að hækkunin nemi 90–100% á íbúðir í fjölbýlishúsum.

Hann segir að eftir hækkunina geti byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld numið samtals 10 milljónum króna fyrir 100 fermetra íbúð.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
© Eggert Jóhannesson (Mynd/Eggert Jóhannesson)

Gjöld á bílastæði nærri tuttugufaldast

Á yfirstandandi fundi borgarstjórnar í dag sagði Kjartan að ekkert sveitarfélag leggi eins há gjöld á nýjar íbúðir og Reykjavíkurborg. Þá furðaði hann sig á að borgarfulltrúar vinstri meirihlutans haldi því fram að ekki sé víst að hækkunin hafi áhrif á verð nýrra íbúða.

Fyrir hækkunina voru gatagerðargjöld á bílastæði um 1.600 krónur á fermetra en hefur nú hækkað í 30 þúsund krónur. Gatnagerðargjald fyrir eitt bílastæði neðanjarðar gæti þannig orðið um 1,2 milljónir króna. Kjartan óttast að svo hátt gjald muni fæla byggingaraðila frá því að hafa bílakjallara í nýbyggingum.

Heimild: Vb.is