Faxaflóahafnir bera uppi stærstan hluta áætlunarinnar með fyrirhuguðum fjárfestingum sem nema 28,5 milljörðum króna til ársins 2040.
Miðað við áætlanir hafnasjóða um fjárfestingar til ársins 2040 standa þeir frammi fyrir fjárþörf sem nemur 96,8 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem greinir nýlegar fjárfestingar og áætlanir 19 hafnasjóða á Íslandi.
Samanlögð velta þessara sjóða nemur um 92% af heildarveltu hafna á landinu. Skýrslan tekur fyrir þrjú tímabil: nýlegar fjárfestingar (2020–2024), áætlaðar framkvæmdir (2025–2030) og fyrirhugaðar framkvæmdir (2025–2040)
Á árunum 2020–2024 var fjárfest fyrir 26,8 milljarða króna í hafnamannvirkjum. Nú horfa sjóðirnir til margfalt umfangsmeiri framkvæmda – sérstaklega í tengslum við aukna afkastagetu, rafvæðingu og markmið stjórnvalda í orkuskiptum og loftslagsmálum.
Faxaflóahafnir bera uppi stærstan hluta áætlunarinnar með fyrirhuguðum fjárfestingum sem nema 28,5 milljörðum króna til ársins 2040.
Smærri hafnir, eins og Sandgerðishöfn, gera aftur á móti ráð fyrir fjárfestingum sem nema innan við 300 milljónum króna.
Stærri hafnir standa fjárhagslega betur og geta fjármagnað meirihluta framkvæmda með eigin tekjum.
Minni hafnir á landsbyggðinni reiða sig hins vegar á ríkis- og sveitarstjórnarfjárframlög. Þetta undirstrikar að mismunandi nálgun verður að liggja að baki fjármögnun – annars vegar að tryggja sjálfstæði stærri sjóða og hins vegar að auka stuðning við minni hafnir.
Samkvæmt greiningunni verða nýir viðlegukantar stærsti fjárfestingarliðurinn og nema framkvæmdir þar um 40,6 milljörðum króna.
Brimvarnargarðar fylgja í kjölfarið með tæplega 19 milljarða. Aðrir þættir eins og landfyllingar og rafvæðing hafna skipta einnig verulegu máli en fjárhæðir þar eru lægri.
Tveir hafnasjóðir þurfa að fimmfalda árlegar fjárfestingar sínar til að ná markmiðum sínum. Aðrir þrír þurfa að tvö- til fimmfalda árlega fjárfestingu.
Án aukins stuðnings gæti það þýtt að ýmsum framkvæmdum verði seinkað eða skornar niður.
Heimild: Vb.is