Home Fréttir Í fréttum Fannst látinn eftir tveggja vikna leit

Fannst látinn eftir tveggja vikna leit

20
0
Hér má sjá gíginn í E6 við Nesvatnið eftir að undirlag vegarins, sem prófessor í jarðtækni sagði vera úr kvikleir, hrundi undan veginum 30. ágúst. Maður, sem leitað hefur verið í tvær vikur, fannst látinn í gær. Skjáskot/Fréttamyndskeið TV2

Jarðneskar leifar dansks manns á fertugsaldri, sem leitað hefur verið eftir jarðfallið á E6-brautinni við Nesvatnið í Levanger í Noregi laugardagsmorguninn 30. ágúst, eru að öllum líkindum fundnar.

Frá þessu greindi lögreglan í Þrændalögum í gær og sagði Olav Strid lögregluvarðstjóri, sem var á vettvangi, manninn hafa fundist undir járnbrautarteinunum en þar stóð rekstraraðilinn Bane Nor fyrir viðhaldsvinnu.

Var mannsins leitað með fulltingi hunda, þyrlu og dróna frá því skömmu eftir að jörðin hreinlega gleypti eina af helstu umferðaræðum Noregs og þar til síðdegis þann dag þegar leitarfólk var orðið örvona um að maðurinn fyndist á lífi.

Rannsakað sem banaslys við vinnu

Eftir það var mannsins leitað með þeim formerkjum að leitarsveitir leituðu að látinni manneskju og bar sú leit loks árangur í dag eftir að litlum gröfum hafði verið beitt við leitina auk ómsjár og hunda.

„Við höfum kerfisbundið unnið okkur hér inn eftir og um svæðið sem að lokum leiddi okkur undir járnbrautarteinana,“ sagði varðstjórinn en lögreglan í Þrændalögum rannsakar andlát mannsins sem banaslys við vinnu þar sem hinn látni var við störf á svæðinu þegar laus kvikleirinn undir E6 gaf sig og gríðarlegur jarðvegsmassi féll í skriðu út í Nesvatnið.

NRK

NRK-II (örvona um að finna manninn á lífi)

Aftenposten

Heimild: Mbl.is