Home Fréttir Í fréttum Háskólinn má ekki kenna í suðurálmu Sögu

Háskólinn má ekki kenna í suðurálmu Sögu

22
0
Umhverfis- og orkustofnun heimilaði kennslu í norðurálmu til vinstri á myndinni en ekki í suðurálmu til hægri. Þessi mynd er tekin í apríl 2024. RÚV – Ragnar Visage

Háskóli Íslands fær ekki leyfi til að hefja kennslu í suðurálmu húsnæðis Sögu við Hagatorg. Umhverfis- og orkustofnun hafnaði ósk háskólans um bráðabirgðaheimild. Húsnæðið er ekki tilbúið.

Byggingaframkvæmdir hafa lengi staðið yfir á húsinu sem áður hýsti Hótel Sögu og Bændasamtökin og verður meðal annars ætlað menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Háskólinn sendi erindi til Umhverfis- og orkustofnunar í síðustu viku, 18. og 21. ágúst, og vísaði í sérstök undantekningartilvik samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að því er fram kemur á vef Umhverfis- og orkustofnunar segir í erindi skólans að afar brýnt sé að hefja kennslu á Sögu.

Það geti valdið nemendum menntavísindasviðs, sem eru 2500, og starfsfólki töluverðu tjóni að bíða með kennslu í þær fjórar vikur sem Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sé skylt að hafa í birtingu auglýsingu um starfsemina.

Heilbrigðiseftirlitið staðfesti að starfsleyfi fyrir kennsluhúshæði á annarri hæð í norðurálmu væri fullnægjandi. Umhverfis- og orkustofnun veitti því bráðabirgðaheimild.

Heilbrigðiseftirlitið gerði hins vegar þann 22. ágúst úttekt á kennslustofum á fyrstu, annarri og þriðju hæð í suðurálmu Sögu og segir húsnæðið ekki tilbúið og viðeigandi gögn vanti. Því sé ekki búið að auglýsa starfsleyfið. Bráðabirgðaheimild hvað varðar suðurálmu var því ekki veitt.

Fréttastofan hefur ekki upplýsingar um til hvaða ráðstafana háskólinn ætlar að grípa.

Heimild: Ruv.is