Home Fréttir Í fréttum Vesturbæjarlaug lokað aftur vegna galla á málningarvinnu

Vesturbæjarlaug lokað aftur vegna galla á málningarvinnu

13
0
Stefnt er að því að laugin opni aftur áður en skólasund hefst. RÚV – Ragnar Visage

Vesturbæjarlaug hefur verið lokað í annað sinn á stuttum tíma. Laugin var lokuð í tvo mánuði fyrr í sumar vegna viðhalds en lokar nú óvænt aftur vegna galla á málningarvinnu.

Dyrum Vesturbæjarlaugar í Reykjavík verður lokað á ný klukkan 20 í kvöld og verður laugin lokuð í um það bil viku. Lokunin mun eflaust valda fastagestum laugarinnar vonbrigðum enda var laugin lokuð í tvo mánuði í sumar vegna viðhalds.

Sundhöll Reykjavíkur er einnig lokuð samkvæmt viðhaldsáætlun til 24. ágúst og því ljóst að gestir Vesturbæjarlaugar geta ekki leitað þangað, né geta gestir Sundhallarinnar leitað í Vesturbæ.

Málning er þegar tekin að flagna af botni Vesturbæjarlaugar, en nýlega var ráðist í gagngerar viðgerðir.
RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir að galli á málningarvinnu sem gerð var á laugarbotninum í sumar hafi valdið því að málning er tekin að flagna af laugarkarinu. Viðgerðir hefjast strax í vikunni þar sem veðurskilyrði gera kleift að vinna verkið hratt og örugglega. Stefnt er að því að laugin opni aftur áður en skólasund hefst.

Þá segir í tilkynningunni að verktakinn sem beri ábyrgð á verkinu harmi það mjög, taki fulla ábyrgð á gallanum og muni standa straum af öllum kostnaði við úrbætur.

Heimild: Ruv.is