
Eftir linnulitla vinnu í allt sumar er útsýnispallurinn Baugur Bjólfs sem rís ofan Seyðisfjarðar farinn að taka á sig mynd. Útlit er fyrir að framkvæmdum ljúki að fullu með haustinu.
Það verður að flestra mati mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu alla í firðinum þegar útsýnispallurinn verður tekinn formlega í gagnið sem verður þó líkast til ekki fyrr en næsta vor eða sumar þegar snjó tekur að leysa eftir veturinn.
Pallurinn stendur afar hátt og snjóalög og leysingar gera það nokkuð flókið að komast á staðinn nema á sérútbúnum bílum. Meira að segja nú þegar sumri er farið að halla er vegspottinn í raun enn aðeins fær fjórhjóladrifnum ökutækjum þó lagfæringar hafi verið gerðar á slóðanum síðustu tvö árin.
Þó bygging útsýnispallsins sjálfs sé fullfjármögnuð hefur að sögn Hugrúnar Hjálmarsdóttur, framkvæmda- og umhverfismálastjóra Múlaþings, engin ákvörðun verið tekin um hvort eða hvenær leggja skal nýjan betri veg upp að Baugnum.
„Það er töluvert stórt verkefni að leggja nýjan veg þangað og gera bílaplan sem tekur við rútuumferð og hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hjá Múlaþingi að gera það.“
Heimild: Austurfrett.is