
Mögnuð fjallasýn blasir við þeim sem hætta sér upp á nýjan útsýnispall sem er í smíðum ofan Seyðisfjarðar. Baugur Bjólfs trónir yfir firðinum í 650 metra hæð og á að verða tilbúinn í haust.
Nýr útsýnispallur ofan Seyðafjarðar er farinn að taka á sig mynd og skagar fram af fjallinu. Baugur Bjólfs verður nýr ferðamannastaður á Austurlandi og eflaust vinsæll hjá farþegum skemmtiferðaskipa.
Fjallið Bjólfur gnæfir yfir Seyðisfirði norðanverðum og á fjallsbrúninni stingur nývirkið fram nefinu. Útsýnispallurinn sést greinilega neðan úr bæ og ber við himinn. Þegar upp er komið sést hvað Múlaþing er að gera fyrir um 160 milljóna króna styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða. MVA byggði undirstöðurnar í fyrrasumar og undirbýr nú að steypa sjálfan Bauginn.
„Þetta er hringur eða svokallaður Baugur Bjólfs sem er 32 metrar í þvermál. Þetta er spennt í tveimur hálfmánum og undir hvorum eru aðeins þrjár undirstöður. Svo á eftir að leggja í þetta rör og kapla því mannvirkið er á fáum undirstöðum og er fram á brúninni þannig að þá þarf að spenna mannvirkið. Þetta er eftirspennt mannvirki og það verður gert þegar steypan er komin með 80% styrk,“ segir Magnús Baldur Kristjánsson, framkvæmdastjóri MVA byggingarverktaka.
Vegurinn gæti orðið vandamál og þurft úrbætur og mokstur
Vegurinn upp að útsýnispallinum er kapítuli út af fyrir sig, hann er mjór og ósléttur malarvegur og þar haldast skaflar langt fram á sumar. Viðbúið er að þar þurfi að moka til að þessi nýi ferðamannastaður verði vel aðgengilegur fyrri part sumars. Síðasta sumar var aðeins hægt að vinna í tvo mánuði vegna þessa.
„Til að þetta gangi allt upp hjá okkur þurfum við að forvinna sem mest og öll mót höfum við byggt í einingaverksmiðju sem við rekum í Fellabæ. Sama gerum við með járnið. Það er búið að valsa og beygja öll járn hér í alla bita. Þannig þau eru bara hífð út og þeim raðað saman,“ segir Magnús Baldur.
Af pallinum er mögnuð fjallasýn yfir fjörðinn og hringurinn skagar fram af brúninni.
„Hér á milli undirstaða á fluginu sem er á bæjarbrúninni eru yfir 20 metrar á milli. Þegar við verðum búnir að spenna mannvirkið þá verður þessi undirsláttur allur fjarlægður þannig að þetta mun svífa hér yfir brúninni. Hér erum við í 650 metra hæð sem gerir framkvæmdatímann mjög stuttan. Ef veðrið verður skaplegt eins og er búið að vera síðustu vikur þá ætti þetta allt saman að ganga upp. Við gátum verið fram í ágúst í fyrra en vonumst til að geta verið út september í ár og lokið framkvæmdum,“ segir Magnús Baldur Kristjánsson, framkvæmdastjóri MVA byggingarverktaka.
Heimild: Ruv.is