Styttingu hringvegarins um 12 km við Hornafjörð mun ljúka fyrir áramót. Verkið hefur gengið vel og er á áætlun samkvæmt Aroni Erni Karlssyni, staðarstjóra Ístaks.
Um er að ræða lagningu 19 kílómetra langs þjóðvegar, 9 km hliðarvega og byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa sem eru samtals 468 m langar að því er fram kemur í öðru tölublaði af framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.
Verkkostnaður nálægt áætlun
Aðspurður segir Aron kostnað verksins vera nálægan því sem upphafleg kostnaðaráætlun segir til, um 6,3 milljarða króna.
Um þessar mundir er aðallega unnið að ræsagerð, rofvörnum og útlögn á styrktarlagi. Klæðning hófst í lok júní og áætlað er að búið verði að klæða allan vegkaflann í lok ágúst.
Langvinnt hringtorgsferli senn á enda
Einungis eitt verk stendur út af – gerð hringtorgs sem tengja myndi Hringveginn við Hafnarveg og Nesjahverfi. Nokkur atriði hafa tafið þann hluta verksins, en nú er loks kominn skriður í málið.
Fyrst um sinn stóð til að tvenn T-laga gatnamót yrðu lögð, en bæjarstjórn Hornafjarðar óskaði eftir því að Vegagerðin myndi hanna hringtorg í stað þeirra eftir að framkvæmdir hófust.
Var það talið ákjósanlegra þar sem líkur séu á að umferð muni aukast verulega á þessum kafla á næstu árum vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu.
Fækkun einbreiðra brúa fagnaðarefni
Einbreiðum brúm á hringveginum mun fækka um þrjár þegar framkvæmdum lýkur. Með því mun draga mikið úr umferð á lengstu einbreiðu brú landsins, sem er 64 ára gömul, 255 m löng og liggur yfir Hornafjarðarfljót.
Fækkun einbreiðra brúa er fagnaðarefni fyrir umferðaröryggi á svæðinu að mati Vegagerðarinnar.
Um 20 slys urðu að meðaltali við einbreiðar brýr árlega á árunum 2002-2021 samkvæmt 5. tbl. Framkvæmda Vegagerðarinnar 2022, en samhliða fækkun einbreiðra brúa fækkaði slíkum slysum.
Heimild: Mbl.is