Fjarðabyggð undirbýr niðurrif á tveimur byggingum í Neskaupstað og einni á Reyðarfirði. Margir einstaklingar eiga minningar einkum tengdar byggingunum í Neskaupstað.
Um er að ræða Strandgötu 62 eða Gylfastaði, sem löngum hafa hýst skjala- og myndasafn Neskaupstaðar. Skjalasafnið hefur nú verið flutt í Lúðvíkshús, endurbyggt hús í Neskaupstað. Í stað Strandgötu 62 kemur hins vegar tjaldsvæði.
Þá samþykkti bæjarráð nýverið niðurrif Mýrargötu 8, sem löngum hýsti félagsstarfsemi Þróttar. „Þetta eru hús sem voru keypt til niðurrifs á sínum tíma og hefur staðið til í mörg ár að rífa. Nú er verið að ganga í það verk,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs.
Þriðja húsið er Öldugata 6, gamall vinnuskúr á Reyðarfirði. Ragnar segir að almennt sé skilningur á að farið sé í aðgerðirnar. „Það eru alltaf einhver sem hafa tilfinningar til húsanna svo ákvörðunin um niðurrif er alltaf erfið.“
Samþykkt bæjarráðs felur í sér að aflað verði tilskilinna leyfa til að rífa húsin og verkið verði unnið á þessu ári.
Heimild: Austurfrett.is