
Gert er ráð fyrir að íbúum Reykjanesbæjar komi til með að fjölga um nærri fjórðung á næstu tíu árum. Byggja þarf 215 íbúðir á ári næsta áratuginn til að mæta þeirri fjölgun. Bærinn hefur skipulagt lóðir fyrir á fjórða þúsund íbúðir.
Í nýrri húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir að íbúum bæjarins komi til með að fjölga um í kringum 5.400 á næstu tíu árum. Það samsvarar rúmlega 23% fjölgun.
Til samanburðar þá hefur íbúum bæjarins fjölgað um 20% á síðustu fimm árum og um 53,5% á síðustu 10 árum samkvæmt tölum Hagstofunnar. Jarðhræringar á Reykjanesskaga hafa haft talsverð áhrif á þessar tölur.
„Athygli vekur að nærri 29% af allri fólksfjölgun í Reykjanesbæ á síðustu tíu árum átti sér stað á árinu 2022 einu. Þessa miklu fjölgun má að hluta rekja til jarðhræringa og rýminga í Grindavík sem leiddu til búferlaflutninga. Talsvert hefur verið um fólksflutning frá Grindavík yfir í Reykjanesbæ frá því jarðhræringarnar hófust árið 2021,“ segir á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Þörf fyrir rúmlega 2.000 fullbúnar íbúðir
Áætlað er að þörf verði fyrir um 215 nýjar íbúðir á ári næstu tíu árin, eða 2.152 samtals. HMS bendir á að uppbygging í Reykjanesbæ hafi verið öflug á síðustu árum. Á síðustu fimm árum hafi fullbúnum íbúðum fjölgað um að meðaltali 151 á ári. Sé horft til síðustu tíu ára hefur þeim fjölgað um að meðaltali 129 á ári.
Samkvæmt tölum HMS voru 444 íbúðir í byggingu í bænum í mars. Það er talið duga til að mæta íbúðaþörf á næstu tveimur árum.
Reykjanesbær hefur lagt sérstaka áherslu á að tryggja nægilegt framboð byggingarlóða. Bærinn hefur nú skipulagt lóðir fyrir rúmlega 3.800 íbúðir á næstu tíu árum. Það eru nærri helmingi fleiri íbúðir en áætlað er að þörf verði fyrir. HMS telur lóðaframboð því vel geta mætt áætlaðri íbúðaþörf ef spár um mannfjölda ganga eftir sem og úthlutunaráætlanir sveitarfélagsins.
Vilja tryggja öllum viðeigandi húsnæði
„Reykjanesbær hefur mótað skýra stefnu um fjölbreytta og félagslega ábyrga íbúðauppbyggingu. Markmið stefnunnar er að tryggja öllum íbúum bæjarins öruggt og viðeigandi húsnæði, óháð tekjum, eignaformi eða félagslegri stöðu,“ segir á vef HMS um húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar.
Bæjarfélagið styður sérstaklega við uppbyggingu leiguíbúða sem ætlaðar eru einstaklingum og fjölskyldum sem falla undir ákveðin tekju- og eignamörk. Til þess að ná markmiðum sínum hefur bærinn nýtt stofnframlög frá HMS og vinnur í nánu samstarfi við sjálfseignarstofnanir á borð við Bjarg íbúðafélag.
Bærinn vinnur einnig við að bæta húsnæðisúrræði fyrir viðkvæma hópa. Unnið er að sértækum lausnum fyrir fatlaða, aldraða og heimilislausa, þar á meðal þróun smáhýsa fyrir einstaklinga með fjölþættar þjónustuþarfir.
Heimild: Ruv.is