Home Fréttir Í fréttum ÍAV lögðu niður störf í Helguvík: “Eigum útistandandi hátt í þúsund milljónir“

ÍAV lögðu niður störf í Helguvík: “Eigum útistandandi hátt í þúsund milljónir“

170
0
Mynd: VÍSIR.IS

Starfsmenn Íslenskra aðalverktaka lögðu niður störf við kísilver United Silicon á hádegi í gær. Ástæðuna segir verktakafyrirtækið vera að það hafi ekki fengið greitt fyrir verkið.

<>

„Allt í allt þá eigum við útistandandi hátt í þúsund milljónir hjá þeim. Aðgerðir okkar í gær snerust um að lágmarka okkar tjón,“ segir Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV, í samtali við Vísi. „Stærstur hluti þessarar upphæðar er gjaldfallinn.“

Að sögn Sigurðar hafa stjórnendur United Silicon lýst því yfir að þeir hafi ekki í hyggju að greiða þetta. Fyrirtæki hans geti augljóslega ekki haldið áfram að vinna ef það er ekki staðið við gerða samninga. „Mig grunar einfaldlega að þeir eigi ekki fyrir framkvæmdinni.“

Verki ÍAV er að mestu lokið. Svipuð staða kom upp í síðasta mánuði en þá náðist samkomulag milli aðila. Þegar ÍAV lögðu niður störf ætluðu starfsmennirnir með sitt hafurtask af svæðinu.

„Við eigum heilmikið af dóti þarna. Þeir voru að reyna að hindra okkur í að taka það sem við eigum,“ segir Sigurður en lögregla kom á staðinn til að skakka leikinn. „Við ætlum ekki að lenda í handalögmálum og því fer þetta fyrir dóm.“

Málið fer fyrir gerðardóm
Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon hér á landi og einn eigenda verksmiðjunnar, hefur aðra sögu að segja. „Við riftum samningnum við ÍAV í gær þar sem þeir stóðu ekki við sinn hluta.“

Að sögn Magnúsar hefur hans fyrirtæki staðið við alla sinn hluta samkomulags aðila. United Silicon hafi greitt alla reikninga og að auki hafi ÍAV greiðsluábyrgð frá banka fyrirtækisins.

„Ég hringdi á lögregluna í gær þegar þeir reyndu að taka græjur og útbúnað sem við höfum greitt fyrir. Það þurfti að stoppa,“ segir Magnús. Í samningi aðila er ákvæði um að deilur fari fyrir gerðardóm og mun hann koma saman sem fyrst. „Við fögnum því og trúm því að það fáist rétt lausn í þetta.“

Verksmiðja United Silicon er tilbúin að stærstum hluta. „Við ætlum að byrja í ágúst að vinna hérna. Það er allt svona 98 prósent tilbúið og aðeins eftir að tengja rafmagn og loftræstinguna.“

Heimild: Visir.is