Home Fréttir Í fréttum Náttúrufræðistofnun leggst gegn uppbyggingu á baðlóni og hóteli á Snæfellsnesi

Náttúrufræðistofnun leggst gegn uppbyggingu á baðlóni og hóteli á Snæfellsnesi

48
0
Löngufjörur á Snæfellsnesi eru á Náttúruminjaskrá. Hafrannsóknastofnun – Svanhildur Egilsdó

Á Laxárbakka á sunnanverðu Snæfellsnesi vilja landeigendur byggja upp umfangsmikla ferðaþjónustu og baðlón. Náttúrufræðistofnun leggst gegn framkvæmdunum þar sem á svæðinu er mikið óraskað votlendi.

Fimm stjörnu hótel með 45 herbergjum, heilsumiðstöð með opnum laugum, veitingastaður, þyrlupallur og frístundahús eru meðal þess sem fyrirtækið Laxárbakki resort vill reisa á jörðinni Laxárbakka í Eyja og Miklaholtshreppi. Eigendur fyrirtækisins eru Ólafur Ólafsson sem oftast er kenndur við Samkip og kona hans Ingibjörg Kristjánsdóttir.

Byggingarnar yrðu um 45.000 fermetrar í heild. Stærsta byggingin yrði hótelið, um 15.000 fermetrar. Þá er gert ráð fyrir 1.750 fermetrum af opnum laugum, þar af 1.000 við heilsumiðstöðina. Í greinargerð með fyrirspurn um matskyldu til umhverfismats segir að gert sé ráð fyrir 300 starfsfmönnum.

Náttúrustofnun algerlega mótfallin uppbyggingu af þessum toga og umfangi

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar í Skipulagsgátt kemur fram að Náttúrufræðistofnun sé algerlega mótfallin uppyggingu af þessum toga og umfangi á verðmætu lífríkissvæði og að tvímælalaust þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Laxárbakki er á sunnanverðu Snæfellsnesi, í Eyja og Miklaholtshreppi. Hreppurinn er sjötta minnsta sveitarfélagið á landinu, með 124 íbúa.
Fréttagrafík – Jónmundur Gíslason

Svæðið er á náttúruminjaskrá. Sunnan Laxár er mikið, samfellt og lítt raskað votlendi og þar megi finna vistgerðir sem hafi mjög hátt verndargildi.

Þá gagnrýnir Náttúrufræðistofnun aðferðir við úttekt á fuglalífi. Ekki sé ljóst hvar fuglar hafi verið taldir né hversu lengi.

Bannað að fara innan 500 metra frá arnarhreiðri á varptíma

Vitað er að hafarnapar á sér hreiður í nágrenninu. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kemur fram að uppbygging mannvirkja muni hafa veruleg neikvæð áhrif á afkomu og heilbrigði fuglanna.

Náttúrufræðistofnun bendir á að óheimilt er að fara innan við 500 metra frá hreiðri hafarna á varptíma nema með sérstöku leyfi frá umhverfisráðherra.

Þyrlupallurinn er fyrirhugaður á þurrlendi en hann verður umkringdur votlendi þar sem vaðfuglar verpi. Líklegt sé að fyrirhugaður þyrlupallur hefði mikil áhrif á verpandi fugla.

Í umsögninni segir: „Það ætti ekki að koma til greina að þarna verði umferð þyrla á þeim árstímum sem fuglar eru viðkvæmastir (varp- og fartíma).“

Uppbyggingin hefði jákvæð áhrif á ferðaþjónustu

Framkvæmdaaðili tekur fram að framkvæmdin hefði veruleg jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og svari eftirspurn eftir gistirými. Þá eigi lega mannvirkjanna að sjá til þess að áhrif á gróður og vistgerðir verði neikvæð en ekki veruleg.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar segir: „Þó svo að mótvægisaðgerðir séu jákvæðar munu þær að litlu sem engu leyti bæta upp fyrir þau óafturkræfu áhrif sem uppbygging sem þessi mun hafa á fuglalíf á svæðinu.“

Heimild: Ruv.is