Alls bárust 285 umsóknir um níu einbýlishúsalóðir, þrjár parhúsalóðir, tvær raðhúsalóðir og tvær keðjuhúsalóðir í Suðurnesjabæ. Úthlutun lóða í öðrum áfanga Skerjahverfis fór fram á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar þann 27. febrúar síðastliðinn.
Úthlutað var sex einbýlishúsalóðum við Brimsker og tveimur við Eyjasker. Þá var úthlutað einni parhúsalóð við Brimsker og annarri við Eyjasker. Parhúsalóðin við Brimsker fékk 46 umsóknir og við Eyjasker bárust 44 umsóknir í aðra lóðina og 43 í hina sem var til úthlutunar.
Raðhúsalóðir við Brimsker og Eyjasker fengu 34 umsóknir hvor og tvær keðjuhúsalóðir við Skerjabraut fengu 14 umsóknir hvor. Þá var einbýlishúsalóð við Hlíðargötu 40 sem fékk sjö umsóknir.
Ekki var hægt að úthluta einbýlishúsalóðunum Eyjasker 3, 7 og 9 þar sem allir umsækjendur um lóðirnar höfðu áður fengið úthlutað einbýlishúsalóð, en einstaklingar geta einungis fengið eina slíka lóð til úthlutunar samkvæmt reglum Suðurnesjabæjar um lóðarúthlutanir. Þær lóðir verða því auglýstar á nýjan leik til úthlutunar á heimasíðu Suðurnesjabæjar.
Heimild: Vf.is