Sérfræðingar hjá HMS segjast vongóðir um að stjórnvöld grípi til aðgerða sem stuðlað geti að betri leigumarkaði. Áhersla á húsnæðismarkaði hér á landi hafi lengi verið á séreignastefnu.
Leigumarkaðurinn hefur verið olnbogabarn stjórnvalda í langan tíma og áhersla lögð á séreignastefnu í húsnæðismálum. Þetta segir Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur og teymisstjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hann segir stjórnvöld þó hafa reynt að móta leigumarkaðinn og koma til móts við leigjendur.
Jónas segir stöðu leigjenda hér á landi vera aðra en til að mynda í nágrannalöndunum. „Þar er fólk sem lítur á leiguhúsnæði sitt sem alvöru húsnæði en ekki sem eitthvað tímabundið, sem er meira staðan hér.“
Hann segir leigumarkaðinn hafa stækkað mikið að undanförnu, ekki síst út af uppgangi ferðaþjónustunnar og aukinni eftirspurn eftir tímabundnu húsnæði vegna aðflutts vinnuafls. Einnig hafi fjölgað á leigumarkaði vegna versnandi lánakjara.
Augljósa svarið að byggja meira
Drengur Óla Þorsteinsson, verkefnastjóri leigumála hjá HMS segir að bregðast þurfi við með því að byggja.
„Það segir sig sjálft og augljósa svarið við þessu er ævinlega það að það þarf að byggja meira,“ segir hann. Annars eigi leiguverð, rétt eins og húsnæðisverð, eftir að hækka og húsnæðisöryggi að minnka.
Vongóðir um aðgerðir
Þeir Jónas og Drengur eru vongóðir um að staða leigjanda batni með aðgerðum ríkisstjórnar.
„Miðað við hvernig ríkisstjórnin hefur talað þá virðist hún ætla að taka þetta föstum tökum. Við fögnum því. Það er margt þarna inni sem ég held að muni geta stuðlað að auknu húsnæðisöryggi hjá tekjulágu fólki, bæði til skamms tíma og til langs tíma,“ segir Jónas.
Til dæmis ætla stjórnvöld að taka skammtímaleigu fastari tökum. Þar að auki standi til að byggja húsnæði sem auðvelt er að byggja á skömmum tíma.
Heimild: Ruv.is