Home Fréttir Í fréttum Hafa kært notkun JL-hússins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála

Hafa kært notkun JL-hússins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála

25
0
Aðsend

Íbúar í grennd við JL-húsið hafa kært leyfi um að hýsa hælisleitendur í húsinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála.

<>

Íbúar í grennd við JL-húsið hafa kært leyfi um að hýsa hælisleitendur í húsinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála.

Fréttastofan greindi frá því fyrr í mánuðinum að sextíu kvenkyns hælisleitendur væru fluttir inn í JL-húsið við Hringbraut í Reykjavík, en Vinnumálastofnun er með húsið á leigu. Unnið er að frekari innréttingum hússins sem á að geta hýst hátt í þrjú hundruð og fimmtíu manns. Í fréttinni kom fram að nágrannar hússins hafi viljað fá grenndarkynningu áður en ákveðið var að hefja starfsemina, en haft eftir forstjóra Vinnumálastofnunar að eftir fund með nágrönnunum hafi engar frekari kvartanir borist.

Formaður húsfélagsins á Grandavegi 42, sem er við hliðina á JL-húsinu segir í greinargerð sem send var fréttastofunni að það sé ekki rétt. .Umræddur fundur hafi verið þann fyrsta nóvember síðastliðinn þar sem íbúar lýstu áhyggjum sínum og gerðu athugasemdir við fyrirhuguð áform um að hýsa allt að fjögur hundruð hælisleitendur í húsinu og áformin hafi ekki á nokkurn hátt verið kynnt íbúum.

Á fundinum hafi komið fram að Vinnumálastofnun sé leigutaki hússins, leigusali sé Framkvæmdasýslan og leyfisgjafi fyrir starfseminni sé embætti byggingafulltrúa. Þar með hafi verið ljóst að málið væri ekki á forræði Vinnumálastofnunar og því ekki fundað frekar með henni.

Málið sé á borði skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sem gefi út leyfi og meti þörf á grenndarkynningu. 20. nóvember hafi verið fundað með félagsmálaráðuneytinu, þar sem fulltrúi Vinnumálastofnunar var viðstaddur, þar hafi áhyggjur verið ítrekaðar og segir í greinargerðinni að í því ljósi sé furðulegt að forstjóri Vinnumálastofnunar haldi fram að frekari kvartanir hafi ekki borist.

Skipulagsfulltrúinn gaf í lok nóvember út leyfi fyir aukinni búsetu í húsinu og að ekki væri þörf á grenndarkynningu þar sem umfangið væri óverulegt með hliðsjón af staðsetningu. Íbúar á Grandavegi 42 hafa kært leyfisveitingu skipulagsfulltrúans til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Heimild: Ruv.is