Home Fréttir Í fréttum Landsnet vill skipa raflínunefnd um Holtavörðuheiðarlínu 1

Landsnet vill skipa raflínunefnd um Holtavörðuheiðarlínu 1

37
0
Gamla byggðalínan var byggð á árunum 1972-184 og það er komið að endurnýjun. Ekki eru þó allir á eitt sáttir um hvar nýja línan eigi að liggja. Skjáskot – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Bændur í Borgarfirði gagnrýna áform um Holtavörðuheiðarlínu 1 sem á að liggja þvert í gegnum uppsveitir Borgarfjarðar. Landsnet segir línuna vera af nýrri kynslóð byggðalína og vill að skipuð verði raflínunefnd til að hindra tafir á skipulagi.

<>

Fyrirhuguð Holtavörðuheiðarlína 1 á að vera 220 kV loftlína með tvöföldum leiðara. Hún á að liggja frá Holtavörðuheiði, suður á leið gegnum sveitir í Borgarfirði og yfir í tengivirki í Hvalfirði. Flutningsgetan verður á milli 800 og 900 MW. Af 29 umsögnum við umhverfismatsskýrsluna er um helmingur frá bændum sem gagnrýna áformin.

Borgarbyggð gagnrýnir umhverfismatið ekki í umsögn við umhverfismatsskýrsluna en Davíð Sigurðsson, formaður byggðarráðs og skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar, segir aðkomu sveitarfélagsins eiga betur heima á seinni stigum: „Borgarbyggð hefur verið í miklu samtali og samráði við Landsnet í gegnum, gegnum það ferli, allt umhverfismatsferlið.“

Vilja skipa raflínunefnd sem hefði skipulagsvald

Hann heldur áfram: „Og nú er boltinn hjá Landsneti. Þeir hafa ekki formlega óskað eftir því að taka línuna inn á skipulag hjá sveitarfélaginu. Hins vegar er komin beiðni frá Landsneti núna, endurtekin beiðni um skipun raflínunefndar.“

Davíð segir slíka nefnd takmarka skipulagsvald Borgarbyggðar að einhverju leyti en hvert og eitt sveitarfélag eigi fulltrúa í raflínunefnd, lagt sé upp með að nefndin nái samkomulagi og komist að samhljóma niðurstöðu. „Hver og einn fulltrúi á fyrir hönd íbúa síns sveitarfélags að reyna að gæta þeirra hagsmuna,“ segir Davíð.

Línan er ekki í drögum að nýju aðalskipulagi Borgarbyggðar

Bændur hafa óskað eftir því að aðrar leiðir verði skoðaðar en þær sem liggja beint í gegnum byggðina í Borgarfirði. „Það eru bara sjónarmið hvort menn vilji hafa þessi mannvirki yfir hálendið eða hvort menn vilji hafa þau nærri byggð. Mín persónulega skoðun er að gamla línan trufli mig ekki og ný lína á svipuðum slóðum myndi ekki trufla mig heldur en það er bara misjafnt hvað fólki finnst.“

Borgarbyggð hefur ekki borist formleg beiðni um að setja nýja línu á skipulag svo hún er ekki í drögum að nýju aðalskipulagi. Þegar slík beiðni berst tekur sveitarfélagið ekki afstöðu; nema ef raflínunefnd er skipuð í millitíðinni.

Ný kynslóð byggðalína

Landsnet hefur í tvígang beðið innviðaráðuneytið um að skipa Raflínunefnd. Slíkri beiðni hefur áður verið hafnað þar sem ekki lá fyrir að ágreiningur væri um framkvæmdina. Þetta var í sumar. Beiðni var lögð aftur fram í október.

Þar er tekið fram að Holtavörðuheiðarlína eitt sé hluti af nýrri kynslóð byggðalínu. Hún eigi að bæta afhendingaröryggi og auka flutningsgetu en líka að bæta nýtingu fjárfestinga í orkukerfi landsins og gera mögulegt að tengja nýja endurnýjanlega orkuframleiðslu við meginflutningskerfið.

Í bréfi Landsnets með viðbótarrökum er vísað til tímafreks skipulagsferlis Blöndulínu 3. Þar þurfi að gefa út framkvæmdaleyfi í hverju sveitarfélagi fyrir sig sem hvert og eitt megi kæra með tilheyrandi töfum.

Í bréfi Landsnets segir: „Með hliðsjón af því hversu hægt hefur gengið að koma Blöndulínu 3 á aðalskipulag, þá óttast Landsnet að málsmeðferð skipulagsbreytinga hjá sveitarfélögunum, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppi, Borgarbyggð og Húnaþingi vestra, vegna Holtavörðuheiðarlínu 1, komi einnig til með að dragast óhóflega.“

Leiðin tiltölulega borðleggjandi

Kristinn Magnússon, verkefnisstjóri fyrir hönnun og undirbúning framkvæmdarverka hjá Landsneti, segir Landsnet hafa lagst í víðtæka valkostagreiningu á mögulegri leið Holtavörðuheiðarlínu 1. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var að fylgja gömlu byggðalínunni að mestu.

„Það komu fram tillögur að línuleiðunum sem liggja fjarri línuleiðinni eins og hún er í dag en mikið af þeim voru tillögur sem í rauninni uppfylla ekki skilyrði framkvæmdarinnar um tengingar við svæðisbundin dreifikerfi og slíkt,“ segir Kristinn.

Hann segir nokkuð af óraunhæfum valkostum ekki hafa verið tekna inn í matið vegna þess að þeir komu ekki til greina fyrir þetta tiltekna verkefni. „Ef við horfum á tengipunktana í Hrútafirði, sem eru mikilvægur tengipunktur fyrir Vesturland og Vestfirði, og staðsetningu tengivirkis í Hvalfirði, þá er þetta tiltölulega borðleggjandi leið.“

Ný lína gæti nýtt betur núverandi og fyrirhugaða virkjanakosti

Kristinn segir markmiðið með byggingu Holtavörðuheiðarlínu 1 væri að bæta afhendingaröryggi og sem slík skipti framkvæmdin máli fyrir landið í heild sinni. „Staðan í flutningskerfinu okkar núna, meginflutningskerfinu, er sú að það er náttúrulega mjög takmarkandi.“

Hann bendir á að margar línur séu komnar til ára sinna og anna ekki þeirri þörf sem er á að flytja orku á milli landsvæða. „Þetta er svo við getum nýtt sem best, bæði þær virkjanir sem fyrir eru í kerfinu og einnig fyrirhugaðar virkjanir sem komnar eru í nýtingarflokk rammaáætlunar og aðra mögulega kosti sem gætu komið til greina.“

Í nokkrum athugasemdum, meðal annars frá Skorradalshreppi, segir að verið sé að byggja öflugri línu en þurfi fyrir 220 kV línu. Í raun gæti þessi lína borið 400 kV spennu. Að sögn Kristins er ómögulegt að Holtuvörðuheiðarlína 1 verði keyrð á 400 kV.

Misskilninginn má rekja til þess að í Kerfisáætlun Landsnets séu tilteknar nokkrar línur á Suðurlandi sem byggðar eru sem 400 kV línur en eru reknar á 220 kV. Þær línur séu hins vegar enn stærri en þær sem fyrirhugaðar eru í Borgarfirðinum. Þó að Holtavörðuheiðarlína verði tvíleiðaralína verður ekki hægt að reka hana á 400 kV vegna þess að möstrin eru ekki nógu há og fjarlægðin milli aðliggjandi fasa ekki nægileg.

Margir orkukostir á teikniborðinu á Vesturlandi

Línan hefur einnig verið gagnrýnd á þeim forsendum að hún flytji ekki raforku til heimila heldur sé aðallega hugsuð til að flytja orku frá umdeildum vindorkukostum til stóriðju. Samkvæmt Kristni er ekki svo auðvelt að aðgreina stórnotendur og minni notendur raforku. „Það er bara eitt flutningskerfi raforku á Íslandi. Þetta snýst ekki um einstaka orkukosti en vissulega eru margir orkukostir á teikniborðinu á Vesturlandi, það er alveg augljóst.“

Heimild: Ruv.is