Til skoðunar er að Bláa lónið notist við vinnuveg viðbragðsaðila sem sinnt hafa gerð varnargarða í Grindavík til að opna starfsemi lónsins. Ef af verður er um að ræða tímabundna bráðabirgðaaðgerð en að sögn Jóns Hauks Steingrímssonar, jarðverkfræðings hjá Eflu, er stefnt að því að opna Grindavíkurveg fyrir almenna umferð 15. desember.
Viðbragðsaðilar hafa fundað með forsvarsmönnum Bláa lónsins svo til daglega til að finna lausn á því hvernig opna megi Bláa lónið að nýju. Sem stendur er hugmyndin að fara eftir svokölluðum Norðurljósavegi sem liggur vestan við Þorbjörn.
Ekki hægt að vinna með bíla í kringum tækin
„Við stefnum að því að koma einhverjum vinnuvélum yfir Grindavíkurveg fljótlega en munum ekki opna fyrir almenna umferð fyrr en um 15. des. Það er ómögulegt að vera að vinna með fullt af bílum í kringum tækin. Svo þegar þetta verður opnað þá verður þetta bara skilyrðislaus opnun fyrir alla,“ segir Jón Haukur.
Hleypt inn á vinnuleið
Norðurljósavegur er ekki fær öllum ökutækjum og því er hugmyndin að Bláa lónið notist við rútur til þess að komast eftir veginum. Norðurljósavegur hefur hingað til verið nýttur undir vinnuvélar. Hins vegar er stefnt að því að fara með gesti Bláa lónsins í „strætóferðum“ frá Grindavík og inn í lónið. Gestir myndu því annað hvort vera fluttir frá Reykjavík eða að þeir myndu sjálfir koma sér til Grindavíkur í gegnum Suðurstrandarveg eða Nesveg.
„Þetta verða svo einhverjar strætóferðir sem verða nýttar undir fólk til þess að fara með það í Bláa lónið,“ segir Jón Haukur.
Að sögn hans verður ekki staðið í eiginlegri vegagerð fyrir Bláa lónið. Hins vegar verður mönnum hleypt inn á þessa „vinnuleið.“
Skýrist betur í lok dags
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu, segir að lokað verði í lónið fram að næstu helgi. Hún segir ekki endanlega niðurstöðu komna í málið en þetta sé vissulega einn af þeim möguleikum sem rætt hefur verið um. „Við erum í góðu samtali og samstarfi við viðeigandi yfirvöld og samstarfsaðila hverju sinni. Hvað varðar opnun eða frekari lokun mun skýrast betur í lok dags eftir fund með viðbragðsaðilum,“ segir Helga.
Heimild: Mbl.is