Home Fréttir Í fréttum Ungur pípulagninganemi greip til sinna ráða í húsnæðiskrísunni

Ungur pípulagninganemi greip til sinna ráða í húsnæðiskrísunni

91
0
Seinni helmingur hússins hífður á sinn stað. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Ungum pípulagninganema blöskraði staðan á húsnæðismarkaði og ákvað að flytja inn tilbúið einbýlishús í tveimur pörtum. Það reis á tveimur klukkutímum og fjölskyldan ætlar að flytja inn fyrir jól.

<>

Liðlega tvítugur pípulagninganemi á Egilsstöðum dó ekki ráðalaus andspænis húsnæðisskorti, háu íbúðaverði og vöxtum. Hann flutti inn heilt einbýlishús sem kom í tveimur pörtum, því sem næst tilbúið og meira að segja með gardínum í stofunni.

Austurtún er ný gata á Egilsstöðum og þar rísa húsin mishratt. Metið á sennilega Bóas Jakobsson, 24 ára lagninganemi, en húsið hans kom á tveimur flutningavögnum. Fyrra stykkið komst á sinn stað klukkan tíu og það seinna klukkan tólf. Þegar opnað var inn í það fyrra blasti við stofan. Bóasi leist ekki á lítið framboð og há verð en vildi samt koma fjölskyldunni inn á húsnæðismarkað.

„Þetta vekur áhuga“

„Markaðurinn er bara erfiður núna. Það er allt dýrt. Þetta virtist bara vera svona ódýrasta lausnin í rauninni. En ekkert verri gæðalega séð, held ég, þótt hún sé ódýrari.

Menn hafa verið að byggja hús úr svona einingum en kannski sjaldgæft að það komi bara í tvennu lagi?

„Já, ég held að það sé svolítið sjaldgæft. Þegar fólk spyr mig út í þetta hús verður það svolítið undrandi og þetta vekur áhuga því þetta er ekki það sem menn eru vanir hérna heima,“ segir Bóas.

Nokkrir menn frá framleiðandanum í Lettlandi koma með, passa að allt sé rétt gert og hafa umsjón með frágangi næstu vikurnar. Húsið, sem er hundrað og fjórir fermetrar, kostar tilbúið með helstu heimilistækjum á bilinu 45–50 milljónir en það þykir vel sloppið í dag. Húsið reis 30. nóvember og Bóas stefnir á að flytja inn ásamt fjölskyldunni fyrir jól. Hann er pípulagninganemi og vinnur í lokafrágangi sjálfur.

„En miðað við önnur einingahús þá er þetta ekki mikið. Svo strandar þetta bara á helvítis píparanum sko. Hann þarf víst að sinna vinnunni heima hjá sér líka,“ segir Bóas.

Heimild: Ruv.is