Home Fréttir Í fréttum Borgin lagt stein í götu Sundabrautar

Borgin lagt stein í götu Sundabrautar

27
0
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi um samgöngumál í samtalsþætti SVÞ.

Þór­dís Kol­brún segir glatað að vega­fram­kvæmdir á Ís­landi séu ekki komnar lengra en að enn sé bara talað um Hval­fjarðargöngin sem stóra sigurinn í PPP-fram­kvæmdum.

<>

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það skorti vilja hjá Reykjavíkurborg til að leggja Sundabraut og upplifir raunar að borgin hafi reynt að tefja fyrir framkvæmdinni.

„Ég held að það þurfi í fyrsta lagi raunverulegan vilja hjá Reykjavíkurborg til þess að Sundabraut verði lögð,“ sagði Þórdís Kolbrún í samtalsþætti SVÞ um samgöngumál, þar sem hún var spurð hvað þurfi að gerast til að Sundabraut verði að veruleika.

„Það hefur skort vilja og það hefur sýnt sig í verki með skipulagsmálum og tafarleikjum. Þetta er ekki forgangsatriði hjá borginni og það er nánast eins og það sé reynt að tefja fyrir því.“

Sem fyrrverandi þingmaður í Norðvesturkjördæmi sagði hún að Sundabraut sé líklega, að undanskildum kannski sveitarvegum á ákveðnum svæðum, sú framkvæmd sem flestir í því kjördæmi myndu setja í forgang þátt fyrir að framkvæmdin yrði ekki innan þess kjördæmis.

„Það er alveg augljóst að Sundabraut verður einhvern tímann lögð. Það er líka augljóst að þetta er örugglega sú framkvæmd sem er líklegust til þess að raunverulega virka sem PPP framkvæmd. Það væri mjög gott dæmi og löngu tímabært að hrinda því í framkvæmd.“

Hvað varðar fjármögnun á uppbyggingu Sundabrautarinnar, þá sagði Þórdís Kolbrún að umræðan hafi breyst mjög mikið á síðasta áratug. Fyrir 10 árum hafi ekki verið sami stuðningur við vegtolla eins og í dag „af því að fólk kallar eftir því að vera með vegakerfi sem virkar“.

„Síðan er auðvitað fólk úti á landi sem horfir á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og borgarlínu og annað slíkt og segir: „Heyrðu, ég væri alveg til í svona pakka. Við erum hérna á Vestfjörðum með land sem við værum alveg til í að selja ríkinu og fá í staðinn einhverjar vegabætur.“ Þannig að ef þú ætlar að vera með einhverja sérstaka gjaldtöku, þá þarf að vera sanngirni og jafnræði í því.“

Glatað að enn sé bara talað um Hvalfjarðargöngin
Þórdís Kolbrún sagði að búið það sé búið að skapa lagaumgjörð um PPP-verkefni, þ.e. samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila, með lögum um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Löggjöfin virki hins vegar ekki sem skyldi.

„Ég segi bara, þetta eru ekki geimvísindi – aðrar þjóðir hafa fundið út úr því hvernig þetta er gert. Það er ekki nóg að segja að eitthvað sé PPP, það þarf að fúnkera sem slíkt og vera með rétta blöndu þannig að það sé þannig.

Ég held að það sé raunverulega eina leiðin fyrir okkur til að ná stórum skrefum í uppbyggingu vegaframkvæmda á Íslandi að velja framkvæmdir sem geta verið PPP og drífa í því og hleypa erlendum aðilum líka inn í það.“

Þórdís Kolbrún sagði að töluverð umræða hafi verið um PPP-verkefni fyrir rúmum áratug þegar hún var aðstoðarmaður Ólafar Norðdal, þáverandi innanríkisráðherra.

„Það er auðvitað alveg glatað að við séum enn þá að tala um Hvalfjarðargöngin sem sigurinn í PPP-framkvæmdum.“

Jónas Kári Eiríksson, framkvæmdastjóri vörustýringar hjá Öskju, var gestur í samtalsþætti SVÞ ásamt Þórdísi Kolbrúnu.

Atvinnulífið kallar eftir þessu
Jónas Kári Eiríksson, framkvæmdastjóri vörustýringar hjá Öskju, tók undir með Þórdísi Kolbrúnu og sagði ótrúlegt að fylgjast með „þessum sandkassaleik“ milli ríkis og sveitarfélaga varðandi Sundabrautina.

„Það er alveg ótrúlegt að þetta hafi ekki náð fram að ganga. Atvinnulífið er að kalla eftir þessu [t.d. út frá] flutningum út á land, Vestfjörðum og öllum þessum flutningi til Reykjavíkur. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Vestfirðir eru í rauninni okkar krúnudjásn að mörgu leyti í verðmætasköpun og nýsköpun.

Það er alveg galið að þetta sé línan sem við erum að bjóða upp á. Mér þætti bara rosalega gaman ef fólk myndi bara hætta þessu og halda áfram að hugsa um heildarhagsmuni.“

Heimild: Vb.is